Grundvallarumræðu skorti um SALEK

06.03.2017 - 09:23
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að aðilar vinnumarkaðarins sem tali mest fyrir SALEK þurfi að setjast niður og velta fyrir sér hvaða ytri aðstæður þurfi að vera til staðar til að uppfylla skandínavískt vinnumarkaðslíkan. „Eru Samtök atvinnulífsins tilbúin til að gangast inn á mjög há lágmarkslaun? Er ASÍ tilbúið í það? Ég er ekki alveg viss um það.“

Hugmyndin um SALEK hefur skandínavíska vinnumarkaðslíkanið að fyrirmynd en þar hækka laun jafnt og þétt án mikilla átaka á vinnumarkaði. Þórólfur var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og benti þar á að ólíkt því sem gerist hér styðjist skandínavíska vinnumarkaðslíkanið við öflugt velferðarkerfi og það sé stór hluti þess að sátt er um það þar. Hágæða læknisþjónusta fáist á hinum Norðurlöndunum án þess að greitt sé fyrir. Kostnaðarhluti sjúklinga sé að aukast hér á sama tíma og litið sé til Skandínavíu í vinnumarkaðsmálum. Taka verði ytri aðstæður með í reikninginn og hafa þekkingu á vinnumarkaðslíkaninu.

Þórólfur telur skorta grundvallarumræðu um vinnumarkaðsmál hér á landi. „Svo sé ég hvernig menn eru að nota þetta. ASÍ og SA eru búin að koma sér svolítið í þá stöðu að búa til kjarnorkusprengjur í kerfið sem þeir taka upp einu sinni á ári og segja: Nú ætla ég að ýta á hnappinn ef allir aðrir eru ekki góðir. Í fyrra var það ákvæði um að þeir gætu tekið upp sömu hækkanir  og hæstar höfðu sést erinhvers staðar annars staðar áður og hótuðu því þangað til að menn sömdu um eitthvað annað á lægri nótunum. Sama var í gildi í lok febrúar. Við þekkjum það hvernig svona kjarnorkukapphlaup ganga fyrir sig í stóru stjórnmálunum.  Aðrir aðilar í ferlinu koma sér líka upp kjarnorkusprengju. Þannig að það  kæmi mér ekki á óvart að BHM og BSRB tækju sig til og reyndu að koma inn svona ákvæðum í sína kjarasamninga. Þá erum við komin með kalt stríð sem getur orðið heitt einu sinni til tvisvar á ári. Við vitum það í svona ástandi að ef það er möguleiki á því að kalt stríð verði heitt þá gerist það fyrr eða seinna.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi