Björgólfur Guðmundsson, einn af aðaleigendum gamla Landsbankans, hefur stöðu grunaðs manns í franskri rannsókn á lánum sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun. Fimm ára rannsókn eins þekktasta rannsóknardómara Frakklands er lokið en óvíst hvort ákæra verður gefin út.
Fjöldi erlendra viðskiptavina Landsbankans í Lúxemborg hefur undanfarin ár leitað réttar síns vegna tiltekinnar tegundar lána sem þeir tóku hjá bankanum fyrir hrun. Þetta voru aðallega ellilífeyrisþegar sem áttu verðmætar húseignir en ekki mikið lausafé. Fólkið fékk lánað út á allt verðmæti hússins en fékk einungis fjórðung greiddan út. Þrír fjórðu voru settir í eignastýringu þar sem féð var fjárfest í skuldabréfum og hlutabréfasjóðum.
Eftir hrun hóf skiptastjóri Landsbankans í Lúxemborg að innheimta þessi lán. Viðskiptavinirnir telja farið sínar ekki sléttir, bæði varðandi lánveitingar bankans og hvernig skiptastjórinn hefur höndlað málið.
Einn þekktasti rannsóknardómari Frakklands, Renaud van Ruymbeke, hefur nú rannsakað lánveitingarnar. Í síðustu viku gaf hann út lista yfir þá sem grunaðir eru í málinu. Þar á meðal eru Björgólfur Guðmundsson og Gunnar Thoroddsen, sem var yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg. Á listanum eru einnig sjö aðrir einstaklingar. Samkvæmt frétt lúxemborgska vefmiðilsins Paperjam er grunur um fjársvik og samningsbrot.
Hinir grunuðu hafa nú þrjá mánuði til að senda rannsóknardómaranum andmæli og í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort ákært verður eða málið fellt niður.
Björgólfur vildi ekki tjá sig í dag en lögmaður hans segist hafa komið því á framfæri við rannsóknardómarann að Björgólfur hafi ekki haft nein yfirráð yfir Landsbankanum í Lúxemborg eða komið þar að daglegum rekstri, heldur hafi hann einungis verið formaður bankaráðs á íslandi, í móðurfélaginu, og hafi ekki setið í neinum öðrum nefndum eða ráðum á vegum móðurfélagsins eða dótturfélaga. Því hafi Björgólfur ekki haft neina vitneskju um þessi mál eða önnur mál Landsbankans í Lúxemborg.
Gunnar Thoroddsen segist fagna því að rannsókn málsins sé nú lokið. Sjálfur telur hann afar litlar líkur á að ákæra verði gefin út enda hafi engin gögn komið fram við rannsókn málsins sem benda til þess að lögbrot hafi verið framin.