Grikkir skera enn niður í velferðarkerfinu

19.05.2017 - 01:27
epaselect epa05972852 Riot policemen try to avoid petrol bombs thrown by protesters during clashes after a protest against the new austerity measures to be imposed after the end of Greece's third bailout next year, in Athens, Greece, 18 May 2017. The
 Mynd: EPA  -  ANA-MPA
Gríska þingið samþykkti í kvöld enn frekari aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum til að uppfylla skilyrði lánardrottna gríska ríkisins fyrir framlengingu lána og niðurfellingu hluta þeirra. Til að mæta kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins lagði ríkisstjórnin fram lagabreytingar sem fela í sér milljarða niðurskurð í velferðarkerfinu.

Í lögunum er kveðið á um töluverða skerðingu á lífeyrisgreiðslum og umtalsverða lækkun á margvíslegum skattaívilnunum. Samtals er þessum aðgerðum ætlað að spara ríkiskassanum 4,9 milljarða evra, eða 550 milljarða króna á árunum 2018 - 2021. Lögin voru samþykkt með 153 atkvæðum gegn 128. 

Nokkur fjöldi fólks safnaðist saman utan við þinghúsið til að mótmæla boðuðum aðgerðum stjórnarinnar, meðan þingheimur ræddi þær og greiddi um þær atkvæði. Nokkrum úr hópi mótmælenda hitnaði mjög í hamsi þegar úrslit atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir og skarst þá í odda milli þeirra og lögreglu. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV