Björg Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar segir þátttöku íslenskra myndlistarmanna í alþjóðlegu myndlistarsenunni alltaf vera að aukast. „Ungir myndlistarmenn eru duglegir að fara bæði í skiptinám og framhaldsnám og tengjast erlendu senunni mjög fljótt,“ segir Björg. Markaður með íslenska myndlist sé að stórum hluta erlendis. Rætt var við Björgu í Víðsjá.

Feneyjar stærsta verkefnið

Stór hluti af starfsemi Kynningarmiðstöðvarinnar er að halda utan um þátttöku Íslands á myndlistartvíæringnum í Feneyjum. „Miðstöðinni er ætlað að halda utan um það verkefni og bera ábyrgð á því, bæði hvað varðar framkvæmd og fjárhag gagnvart stjórnvöldum, listamönnum og listasenunni. “ segir Björg Stefánsdóttir. „En jafnframt því þá er hlutverk okkar að kynna íslenska myndlist erlendis og það gerum við í samstarfi við ansi marga, til dæmis stofnanir og einkaaðila hér á landi og erlendis.“

Björg bendir á að með tilkomu Kynningarmiðstöðvarinnar hafi framlag Íslands í Feneyjum alltaf hlotið góða athygli. „Þetta er til dæmis eina verkefnið þar sem við fáum til samstarfs með okkur erlent kynningarfyrirtæki sem sérhæfir sig í því að kynna myndlist. Það hefur nýst okkur alveg gríðarlega vel. Myndlistarmaðurinn sem valinn er hverju sinni er í raun að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar og þetta er eina myndlistarsýningin í heiminum sem er byggð upp með þeim hætti. Tvíæringurinn er okkar allra allra stærsta verkefni og er haldinn annað hvort ár, þannig að hringurinn hjá okkur er alltaf tvö ár. “

Yfirlit yfir senuna

Auk þátttökunnar í Feneyjum hefur Kynningarmiðstöðin komið á fót öðru verkefni sem er bókaútgáfa sem ætlað er að sýna það sem efst er á baugi í íslenskri myndlist á hverjum tíma.

„Við erum núna að vinna í annarri bókinni og við höfum verið að fara erlendis með þessa útgáfu og tengjum okkur þá við stóra viðburði sem eru í gangi, eins og til dæmis listamessur, Berlin Artweek og slíkt. Í fyrstu bókinni voru viðtöl við sjö íslenska myndlistarmenn og við ætlum okkur að taka púlsinn á myndlistarsenunni á því ári þegar hver bók kemur út. “

Aukin fagmennska 

Á undanförnum árum hafa fleiri fag-gallerí komið undir sig fótunum á Íslandi en áður var og þeir aðilar eru farnir að taka þátt í alþjóðlegum myndlistarsýningum og -messum austan hafs og vestan.

„Þessi þróun skiptir gríðarlega miklu máli af því að við erum það lítil miðstöð að við getum ekki verið að kynna einstaka myndlistarmenn á hverjum tíma, heldur erum við meira að kynna senuna. Galleríin vinna hins vegar fyrir sinn hóp listamanna og kynna þá. Nú eru starfrækt a.m.k. þrjú slík gallerí í Reykjavík, i8, Berg Contemporary og Hverfisgallerí sem öll taka þátt í messum og sýningum úti í hinum stóra heimi. Hér á Íslandi fer hópur safnara og þeirra sem fjárfesta í íslenskri myndlist stækkandi og það er gleðilegt, en ég held samt að stærsti kúnnarhópurinn komi erlendis frá.“

Mikill áhugi 

Björg segir áhugan á íslenskri myndlist gríðarlegan, víða um heim. „Við fáum endalausar fyrirspurnir erlendis frá um samstarf og stór þáttur í okkar starfsemi er að halda utan um og hafa umsjón með ferðastyrkjum sem ætlaðir eru íslenskum myndlistarmönnum til að taka þátt í erlendum sýningum og verkefnum. Þátttakan hefur aukist alveg gríðarlega, ekki síst með tilkomu Listaháskóla Íslands á sínum tíma.“

Í viðtalinu hér að ofan má heyra Björgu ræða nánar um margt það sem snýr að kynningu á íslenskri myndlist erlendis.