Grenlækur í Skaftárhreppi, skammt frá Kirkjubæjarklaustri, er þornaður upp á löngum köflum. Erlendur Björnsson, formaður Veiðifélags Grenlækjar, segir sárt að horfa upp á ána í þessu ástandi. „Þetta var einu sinni Grenlækur en er það ekki lengur.“ Hann segir þetta hafa verið áratuga baráttu.

Erlendur segir helstu ástæðu þess að áin sé þornuð upp sé garður sem Vegagerðin og Landgræðslan reistu til að vernda bæði veginn og mosa í Eldhrauni. Hann segir að garðurinn hefti vatnsrennsli úr árkvíslum sem renna út í hraunið. 

Hann segir að garðurinn hafi fyrst hafa verið reistur árið 1992. Sex árum síðar, árið 1998, hafi myndast svipað ástand í Grenlæk og núna. Þá var garðurinn rofinn. Síðan hafi garðurinn verið reistur aftur árið 2000. Erlendur segir að hann hafi farið fram á að gert yrði umhverfismat á framkvæmdinni, en það hafi ekki verið gert. 

Hann segir að ástandið núna sé töluvert verra en árið 1998. Lárus Elíeser Bjarnason, fyrrverandi íbúi á svæðinu, gekk með fram árbakkanum á dögunum. Hann segir að ástandið sé skelfilegt.

Á myndum frá Grenlæk sem teknar voru 28. júní sjást dauðir fiskar í grunnum pollum þar sem áin rann áður. Myndir sem teknar voru úr lofti með dróna sýna að áin er þornuð upp á löngum köflum. 

Myndbandið af læknum hér að ofan tók Lárus Elíser Bjarnason.