„Gott að ferlinu skuli loksins vera að ljúka”

19.06.2017 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Sjúkraflugvél Mýflugs  -  RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Flugöryggisfulltrúi Mýflugs segir gott að skýrslan um flugslysið á Akureyri sé komin fram og að ferlinu sé loks að ljúka. Margt hafi verið tekið til endurskoðunar hjá fyrirtækinu eftir að flugvél þess brotlenti í ágúst 2013. Tveir létust í slysinu og einn slasaðist. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur komist að þeirri niðurstöðu að mannleg mistök hafi valdið slysinu, samstarfi áhafnar verið ábótavant og verklagsreglum ekki fylgt.

Margar breytingar á verklagi eftir slysið

Sigurður Bjarni Jónsson, flugöryggisfulltrúi Mýflugs, segir þetta mikinn létti.

„Það er gott að ferlinu skuli loksins vera að ljúka,” segir hann. „Þetta staðfestir ýmislegt sem við vorum búnir að skoða sjálfir. Við hins vegar höfum bara reynt að líta svolítið í eigin barm og skoða málið þess utan.”

Sigurður segir að mörgu hafi verið breytt í verklagi Mýflugs eftir slysið.

„Við höfum gert allnokkrar breytingar. Þegar svona atburður verður þá væri það mjög skrýtið að halda bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þannig að við erum búnir að leggja í gríðarlega mikla vinnu og höfum haldið rannsóknarnefnd samgönguslysa og Samgöngustofu upplýstum um hvað við erum að gera og í kjölfarið gert allnokkrar breytingar á ýmsu í okkar rekstri,” segir hann. „Það er gott að sjá að það sem við höfum verið að gera er mjög í ætt við það sem lagt er til í skýrslunni að gert væri. Þá skoðun á áhafnarsamstarfi og slíkum þáttum.  

Gott samstarf við rannsóknarnefndina 

Hann undirstrikar að samstarfið við rannsóknarnefndina hafi verið mjög gott.

„Og í rauninni aðdáunarvert að fylgjast með því hversu nákvæmlega þetta hefur verið gert,” segir Sigurður. „Það hefur verið svolítil pressa á nefndina að skila skýrslu, en ég verð að segja að ég er mjög ánægður með það að þetta skildi hafa verið rannsakað eins vel og ítarlega og að menn skildu hafa gefið sér þann tíma sem þurfti.”

Brotlenti á akstursbraut Bílaklúbbsins

Flugvél Mýflugs var að koma úr sjúkraflugi frá Höfn til Reykjavíkur á leið til Akureyrar fimmta ágúst 2013. Vélin brotlenti á akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar fyrir ofan bæinn laust eftir hádegi. Fjöldi fólks var á brautinni en tímatökur í götumílukeppni Bíladaga voru nýafstaðnar þegar slysið varð. Þrír voru í vélinni og létust flugstjórinn og sjúkraflutningamaðurinn báðir, en flugmaðurinn slasaðist alvarlega. Vélin gjöreyðilagðist. Enginn slasaðist á jörðu niðri, en einhverjir bílar skemmdust. Samkvæmt innri athugun Mýflugs eftir slysið var engu áfátt hvað varðar útbúnað og viðhald vélarinnar eða hvíld flugmanna.

Mannleg mistök og brot á verklagsreglum

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur nú skilað lokaskýrslu um flugslysið, tæpum fjórum árum síðar, þar sem segir að mistök flugstjóra hafi valdið slysinu og verklagsreglum hafi ekki verið fylgt. Keppnin á brautinni hafi mögulega náð athygli flugstjórans, sem kannaðist við fólkið, og vélinni hafi verið flogið of nálægt jörðu. Rannsóknin leiddi í ljós að aðflugið var ekki nægilega skipulagt, verklag hafi verið brotið og samvinnu áhafnar var ábótavant.  Þá hafi verið tekin of kröpp beygja sem varð til þess að vélin hrapaði.