Nokkuð snarpur jarðskjálfti varð við jaðar Krossárjökuls í Þórsmörk um átta kílómetrum norðan við gosstöðvarnar. Ástæðan er rakin til spennubreytingar á svæðinu vegna eldgossins. Enn er allt með kyrrum kjörum í Kötlu.
Gosstrókarnir í nýju sprungunni á Fimmvörðuhálsi ná um hundrað metra hæð. Ekkert lát er á gosinu og ekki hefur heldur dregið úr virkninni í eldri gígnum.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur var á Fimmvörðuhálsi í morgun, þriðja daginn í röð, við rannsóknir. Hann segir að sjónarspilið í nýju sprungunni hafi verið mikið í gærkvöldi. Ármann segir að sprungan sé nú orðin um þrjú hundruð metra löng og hraunbreiðan í kring myndarleg. Ekkert lát sé á gosvirkninni í gígnum, strókarnir nái um eitt hundrað metra í loft upp.
Hraunfossinn sem rennur í Hrunagil hefur glatt ferðalanga á Fimmvörðuhálsi undanfarna daga. Hann var afar kröftugur í fyrradag, hitinn svo mikill að erfitt var fyrir fólk að standa nærri gilbarminum, þótt það væri nokkra metra ef ekki tugi metra frá glóandi hraunflæðinu.
Jarðfræðingar keppast nú við að rannsaka eldsumbrotin. Eitt af því sem menn velta nú fyrir sér er hve langt að hraunið er komið sem gosgígarnir á Fimmvörðuhálsi skila upp á yfirborðið.
Nú hefur um það bil jafnmikið hraun komið upp og sem nemur gliðnun fjallsins. Olgeir Sigmarsson, jarðfræðingur segir að vorið 2009 hafi mælst mjög djúpstæðir skjálftar, á yfir 20 km dýpi. Kvikan komi nú upp af miklu dýpi.
Í þessu gosi virðist kvikan sem skilar sér upp á yfirborðið ekki koma úr kvikuhólfi heldur berast viðstöðulítið úr möttli jarðar. Olgeir segir slíkt frekar sjaldgæft. Það sé mjög áhugavert ef það er raunin.