Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir að spá Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings sýni að mjög einfalt samband var á milli sigsins í Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni. Nú þurfi skoða nánar hvaða þýðingu það hafi fyrir framhaldið.

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur spáði fyrir um goslok í Holuhrauni. Spána setti hann fyrst fram 11. október, rúmum mánuði eftir að eldgosið hófst. Spána byggði hann á sighraða Bárðarbungu. Hann, ásamt dóttursyni sínum, fundu út að sigið fylgdi eftirfarandi jöfnu: y = -0.0012x2 + 0.4321x.  Samkvæmt jöfnunni, sagði Haraldur að goslok yrðu um mánaðarmótin febrúar-mars 2015. 

Margir voru efins 

Haraldur ítrekaði spá sína nokkrum sinnum en framan af voru margir efins um að sambandið milli sigsins og eldgossins væri eins fyrirsjáanlegt og raun bar vitni. 

Eldgosinu lauk föstudaginn 27. febrúar 2015. Það hafði þá staðið yfir frá því 31. ágúst 2014 en jarðhræringarnar í Bárðarbungu hófust með stórri skjálftahrinu 16. ágúst sama ár.

Hvað þýðir þetta? 

Vísindamenn reyna nú að spá fyrir um framhaldið. Er líklegt að það gjósi aftur í Bárðarbungueldstöðvarkerfinu á næstunni eða er jarðhræringunum lokið þar, í það minnsta næstu árin?

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur segir að jafna Haraldar og spá um goslok sé mikilvægur þáttur í því að meta framhaldið. Það hafi sýnt sig að einfalt samband hafi verið á milli sigsins í Bárðarbungu og virkninnar á gosstöðvunum, eins og Haraldur hélt fram. Það þýði að kerfið sé jafnvel frekar einfalt í grunninn og spurningin sé hvað kvikugeimirinn undir Bárðarbungu geri næst.

„Þetta var ótrúlega einfalt ferli. Það byggði á ákveðnum forsendum sem við vissum ekki hvort myndi halda en þetta er nánast bara einn kvikugeimur sem er verið að tappa úr allan tímann og það minnkaði þrýstingur jafnt og þétt í honum, þrýstingurinn féll í þessum geimi í takt við sigið í Bárðarbungu og þetta sig stoppaði þegar að eldgosinu líkur.  Það segir okkur að kerfið er kannski frekar einfalt í grunninn og spurning núna hvað þessi kvikugeimir undir Bárðarbungu gerir í framhaldinu, það er kannski það sem við erum að leita eftir“, segir Freysteinn.