Gosinu í Grímsvötnum er lokið. Magnús Tumi Guðmundsson fer fyrir hópi vísindamanna sem nú er nýkominn að gosstöðvunum.

Magnús var um kílómeter austan gosstöðvanna í hádeginu og kvaðst sjá vel yfir þær. Hann kvaðst geta staðfest goslok, en það legði einungis gufu upp úr einum litlum gíg. Hann sagði að vísindamenn yrðu þarna fram á föstudag, til að mæla þykkt og umfang gjóskunnar víða á Vatnajökli. Síðan verði gosstöðvarnar rannsakaðar nánar eftir því sem aðstæður leyfðu.