Þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að eldsumbrotin í Holuhrauni hófust. Ekkert lát virðist vera á virkni gossins í gígnum Baugi og áfram skelfur jörð undir Bárðarbungu.
Eftir mikla skjálftavirkni í Vatnajökli og Dyngjujökli byrjuðu eldsumbrotin í Holuhrauni 29. ágúst með litlu gosi sem fjaraði út eftir nokkra klukkutíma. Tveimur dögum síðar hófst annað og mun stærra gos sem enn stendur yfir.
Ekkert lát er á virkni þess, eins og ljóslega sést á þessum myndum sem Ómar Ragnarsson tók þegar hann flaug þarna yfir í gær. Kvikan vellur upp á nokkrum stöðum í gígnum Baugi, og rennur langar leiðir, núna til suðausturs.
Hraunbreiðan norðan Dyngjujökuls er orðin um sjötíu og fimm ferkílómetrar að stærð. Öll umferð á landi að gosstöðvunum er bönnuð, og þess vegna má stöðugt sjá flugvélar á sveimi yfir gígnum og hrauninu, með ferðalanga sem ólmir vilja berja gosið augum.
Í Bárðarbungu heldur landið áfram að síga vegna kvikunnar sem þaðan streymir að Holuhrauni; um fjörtíu skjálftar hafa orðið í Bárðarbungu síðan á miðnætti.