Halldóra Geirharðsdóttir var valin besta leikkona í aðalhlutverki á Edduverðlaununum í kvöld eftir framúrskarandi leik í kvikmyndinni Kona fer í stríð. Í þakkarræðu sinni var henni sérlega umhugað um kvíða og núvitund og hvatti fólk til þess að snúa veröldinni við.
Halldóra Geirharðsdóttir stóð uppi sem besta leikkona í aðalhlutverki á Edduverðlaunahátíðinni í kvöld en það mætti með sanni segja að sá verðlaunaflokkur hafi verið býsna sterkur, enda konur í burðarhlutverkum í stærstu myndum síðasta árs. Verðlaunin fékk hún fyrir hlutverk sitt í Kona fer í stríð sem jafnframt var valin besta kvikmyndin. Halldóra var sérlega glöð með það að fá verðlaunin afhent úr höndum Kristbjargar Kjeld sem hún sagði vera sína stærstu fyrirmynd. „Það skiptir máli fyrir ungar stúlkur að eiga stórkostlegar fyrirmyndir“.
Halldóra var afskaplega glöð að vera á staðnum í kvöld en hún hafði áður fengið Edduverðlaunin fyrir fáeinum árum og gat þá ekki verið viðstödd. Það gerði það að verkum að dóttir Halldóru, Steiney Skúladóttir, fór í hennar stað og flutti þakkarræðuna. „Hún hætti við að fara í læknisfræði eftir þetta. Henni fannst svo geggjað gaman í blissi og beinni útsendingu“.
Halldóru var sérlega umhugsað um kvíða og sagði gestum og áhorfendum Eddunnar sögu úr heimsreisu sinni. Hún hvatti fólk í framhaldi til að snúa veröldinni við og horfa á fortíðina fyrir framan sig og framtíðina fyrir aftan sig. „Ekki vera of metnaðarfull krakkar, göngum afturábak til framtíðar,“ sagði Halldóra að lokum.