Nýjasta mynd Coen-bræðra heitir The Ballad of Buster Scruggs og er safn stuttmynda úr villta vestrinu. Myndin skartar stjörnum á borð við Liam Neeson, Zoe Kazan, Bill Heck, Tim Blake Nelson, Tyne Daly og Tom Waits. Marta Sigríður Pétursdóttir fjallaði um myndina í Lestinni.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Það verður að teljast til tíðinda þegar þegar þeir bræður Ethan og Joel Coen gera nýja mynd enda eru þeir með virtustu og dáðustu kvikmyndaleikstjórum samtímans sem tekst að gera listrænar og krefjandi myndir sem þó fljóta í meginstraumnum og ná til breiðs áhorfendahóps. Nýjasta mynd Coen-bræðra ber titilinn The Ballad of Buster Scruggs, og er um nokkuð óvanalega kvikmynd að ræða en myndin samanstendur af sex sögum eða köflum sem þó mynda eina heild sem má sjá sem stuttmyndaröð, eða lög á safnplötu eða smásögur.

Kvikmyndin var sýnd í völdum bíóhúsum í viku áður en myndin fór í sýningar á Netflix streymiveitunni fyrr í mánuðinum þar sem íslenskir áhorfendur geta séð myndina. Önnur kvikmynd framleidd af Netflix, Roma, eftir mexíkóska leikstjórann Alfonso Cuarán er einnig væntanleg í bíó í þessari viku, en verður aðeins í sýningum þangað til hún fer á Netflix þann 14. desember. Bæði The Ballad of Buster Scruggs og Roma voru frumsýndar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og er það gert svo að myndirnar séu samkeppnishæfar á verðlaunahátíðum. Í umgjöllun Indiewire um Buster Scruggs kemur fram að þrátt fyrir orðróm þess efnis að um sjónvarpsþætti frá Coen-bræðrum væri að ræða þá stóð aldrei annað til en að gera röð stuttmynda sem gætu staðið saman sem eitt heildstætt verk að þeirra sögn. The Ballad of Buster Scruggs endaði svo á borði hjá Netflix sem gat framleitt myndina og fjármagnað, samkvæmt Coen-bræðrum hefði ekkert hinna kvikmyndaveranna lagt í svona óhefðbundið verkefni. Það má því velta vöngum yfir því það hvaða áhrif Netflix er að hafa á kvikmyndabransann og rekstur kvikmyndahúsa sem treysta vitaskuld á að myndir séu fyrst aðgengilegar á hvíta tjaldinu en ekki í fartölvunni, símanum eða snjalltækinu. Er það slæm þróun eða góð þróun eða kannski bara bæði? Það fylgja öllum nýjungum kostir og gallar. Tíminn og reynslan verða að leiða það í ljós en hingað til virðast kvikmyndahúsin hafa spjarað sig, það er upplifun að fara í kvikmyndahús og horfa á kvikmyndir í myrkvuðum sal umkringd ókunnugu fólki í hámarks hljóð- og myndgæðum sem ekki er hægt að endurskapa í heimahúsi.

Í The Ballad of Buster Scruggs eru Coen-bræður á kunnuglegum slóðum, en myndin er hreinræktaður vestri, jafnvel einum of, en ég kem betur að því síðar - og fellur í flokk fyrri vestrmynda Coen-bræðra: No Country for Old Men og True Grit og fleiri mynda þeirra sem vísa til vestranna. Myndin er eins og áður sagði í raun sex stuttar myndir eða sögur sem þó gerast allar í sama heiminum og tengjast þematískum böndum, það er villta vestrið, sköpunarsaga Bandaríkja nútímans og þær ævintýralegu víddir um átök góðs og ills sem sú saga inniheldur, nema að vitaskuld eru engar hreinar línur í þeim efnum þegar það kemur að Coen-bræðrum. Tónlistin skipar veigamikinn sess í myndinni, þannig er fyrsti hluti myndarinnar, sem einnig ber heitið The Ballad of Buster Scruggs eins konar grínsöngleikur en tónninn er gefinn strax í upphafi, þemað er dauðinn en hann kemur fyrir í öllum sögunum. The Ballad of Buster Scruggs er sett upp líkt og um bókalestur væri að ræða, við sjáum bókinni bregða fyrir á milli kafla á meðan það er skipt úr einni sögu í aðra.

Svartur húmor, kaldhæðni örlaganna, glórulaus grimmd og græðgi mannskepnunnar eru leiðarstef í þessu hlaðborði Coen-bræðra þar sem öll þeirra helstu höfundareinkenni fá að njóta sín. Það er einvalalið leikara og tónlistarmanna sem kemur fram í myndinni. James Franco, Liam Neeson, Zoe Kazan, Tyne Daly, Tim Blake Nelson sem fór með eitt burðarhlutverkið í O Brother Where Art Thou og sjálfur Tom Waits á sviðið í einni sögunni sem fjörgamall gullgrafarmaður sem leggur allt í sölurnar fyrir þetta verðmæta grjót. Myndatakan, hljóðheimurinn og klippingin eru frábær að sjálfsögðu og myndin er veisla fyrir augu og eyru. Einnig má finna ríkulegar vísanir í heimsbókmenntirnar, sérstaklega í hlutanum Meal Ticket, en þar er Liam Neeson í hlutverki stjóra lítils farandleikhúss þar sem útlimalaus maður er settur á svið og látinn fara með ljóð Shelley, texta eftir Shakespeare og biblíusögu. Slakasti hluti myndarinnar er sagan um ólánsama bankaræningjann með James Franco í aðalhlutverki en ég hreifst mest af The Gal Who Got Rattled, sem náði einna mestu flugi að mínu mati, sem gerist úti á sléttunni þar sem landnemarnir eru að ferðast með hægri lest vagna í átt til betra lífs, en dauðinn hlífir á endanum engum.

Það var þó eitt sem sló mig og kom í raun hvergi fram í annars einróma lofsamlegri gagnrýni um myndina og það er hlutverk innfæddra, eða Native Americans í sögunum tveimur þar sem þeim bregður fyrir. Þar eru þeir eru sýndir á sama máta og í hefðbundnum eldri vestramyndum; sem villimenn, hættan við sjóndeildarhringinn og sem ógn við kúreka og hvíta landnema. Þó svo að um nokkuð augljósa háðsádeilu á Bandarískt þjóðfélag sé að ræða og meðvitaða staðsetningu innan gamalgróinnar og sögulegrar kvikmyndagreinar þá lét þetta mig staldra við. Hvaða tilgangi þjónar þessi stöðuga úrvinnsla og endurvinnsla á gömlum sagnaarfi ef við erum ekki að fá ný sjónarhorn? Coen-bræður eru óumdeilanlega í valdastöðu sem kvikmyndagerðarmenn sem fá mikla fjármuni í hendur til þess að gera kvikmyndir sem ná mikilli útbreiðslu.

The Ballad of Buster Scruggs hefur fengið nánast einróma lof gagnrýnenda sem eru flestir bara nokkuð ánægðir með verkið sem er gæðastimplað í bak og fyrir af hinum vandvirku Coen-bræðrum. Vefurinn nowtoronto.com efndi hins vegar til umræðna kvikmyndagerðafólks sem teljast til minnihlutahóps innfæddra í Kanada þar sem þau ræddu um téða vafasama framsetningu á “Indjánum” í The Ballad of Buster Scruggs. Í umræðunum tók meðal annars þátt höfundur bókar um kvikmyndagerð Coen-bræðra, kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur. Í vefútgáfunni af þessum pistli verður hlekkur á greinina og ég hvet áhugasama til þess að lesa allt samtalið. Þau benda á að þetta sé ekki nýtt vandamál í kvikmyndagerð þeirra bræðra þar sem hið hvíta sjónarhorn sé ráðandi, þar sem skortur hefur verið á fjölbreytileika í leikaravali og sögupersónum. Þó svo að ýkt framsetning á infæddum í myndinni sé í stíl við þann ýkta heim vestrans sem myndin málar upp og er alls ekki neinn draumastaður, þvert á móti, þá er það eftir sem áður varhugaverð framsetning sem ekki geri mikið fyrir þeirra samfélag og réttindabaráttu.

Eins og leikstjórinn Shane Belcourt segir í samtalinu ,,Við elskum öll vestra, kúrekana, hestana, og Villta Vesturs heiminn. Það sem vantar í þennan heim samt er tilfinningin um að það var annað fólk, önnur hlið á sögunni og önnur hlið af mannkyninu sem ekki nýtur sannmælis þegar við fáum bara Zombie árásir Indjána sem birtast í fjarska við sjóndeildarhringinn.” Þau benda einnig á að myndinni takist ekki að miðla þessari mikilvægu hlið sögunnar, eða þessa atburði út frá sjónarhorni innfæddra sem geti miðlað því mikla ofbeldi sem fylgdi landnámi í Ameríkuálfunum. Það sjónarhorn sem Coen-bræður hafa er hvítra karlmanna, og það er sjónarhornið sem hefur verið og er enn ríkjandi í kvikmyndagerð, en það er og verður alltaf takmarkað. Í samtalinu á síðunni nowtoronto bendir Lisa Jackson á þær sögur sem hvítt og velmeinandi kvikmyndagerðarfólk vill gjarnan segja um infædda viðhaldi aftur á móti fórnarlambsfrásögninni sem er líka hættuleg vegna þess að þeir ofur einfalda og viðhalda líka mýtunni um hvíta bjargvættinn sem veldur oftar en ekki skaða.

Gagnrýnandinn Adam Nayman sem nýverið gaf út doðrant um höfundarverk Coen-bræðra bendir á annan mikilvægan punkt í umræðunum um The Ballad of Buster Scruggs en það er hinn einsleiti hópur hvítra kvikmyndagagnrýnenda sem stýrir opinberri umræðu um kvikmyndir. Þess vegna sé fókusinn frekar á að afbyggja myndina út frá einkennkum vestragreinarinnar frekar en að skoða blóðuga og marglaga söguna sem býr þar á bakvið og fær ekki að heyrast. Nayman bætir einnig við að í sumum myndum þeirra séu karakterar sem séu að mörgu leyti kómískar steríótýpur sem jaðri við að vera rasískar. Það falli svo í hlut kvikmyndagagnrýnenda sem eru í meirihluta hvítir að réttlæta tilvist þessara persóna innan heims myndarinnar þar sem dæmið gengur upp. Líkt og sú vafasama og klisjukennda vestramynd sem er dregin upp af indjánum í The Ballad of Buster Scruggs.

Á meðan það vantar svona stóran hluta af sögunni, eða mikilvægt sjónarhorn Fyrstu Þjóðanna sem eru enn og aftur í hlutverki mállausrar ógnar villimanna í nýja heiminum í sagnaheimi grimmra vestraævintýra Coen-bræðra þó svo að undirtónninn sé fjarlægur og kaldhæðinn gagnvart örlögum hvítu landnemanna og kúrekanna, þá getur þetta ekki verið annað en nokkuð yfirborðskennd kvikmyndaupplifun, gömul tugga með nýjum bragðblæbrigðum er samt bara gömul tugga.