Fyrst verður að afla upplýsinga um vegslóða á Hálendi Íslands ef sátt á að nást um hvar má keyra og hvar ekki segir dósent við Háskóla íslands. Í nýrri rannsókn á hálendinu verður notast við loftmyndir til að frá yfirsýn yfir umfang vegslóða.
Ásókn ferðamanna inn á hálendið hefur aukist mjög síðastliðna áratugi og erfitt virðist vera að halda akstri þar í skefjum. Þrátt fyrir að akstur sé bannaður á hálendinu núna hafa borist spurnir af ferðum manna þar undanfarið. Björgunarsveitir aðstoðuðu t.d. ökumann sem festi bílinn sinn á Landmannaleið, en vegurinn er lokaður með keðju frá Vegagerðinni. Slóðar uppi á hálendinu hafa verið kortlagðir og gps mældir, en þrátt fyrir það vantar upplýsingar.
„Hvað af þessum slóðum getum við skilgreint sem utanvega akstur? Megum við keyra alla þessa slóða eða eigum við að loka einhverjum slóðum?", spyr Rannveig Ólafsdóttir, dósent í land- og ferðamálafræði, og segir skipulagsyfirvöld á hverju svæði engin tæki hafa í höndunum hverju eigi að loka af þessu.
Ekki er alltaf vitað hvernig vegslóðar verða til. Sumir þeirra hafa myndast þegar fjórhjólum eða jeppum er ekið eftir gömlum troðningum. Rannveig segir að það vanti gögn til þess að geta sett eitthvað regluverk svo allir verði sáttirÞað sé langt í frá að sátt sé um hvar megi keyra og hvar ekki.
Í Kenía hefur verið notast við gervitunglamyndir við að greina vegslóða og utanvegaakstur. Myndirnar má síðan nota aftur og aftur til að fylgjast með breytingum sem verða. Rannveig reyndi að fá fjármagn til að gera samskonar greiningu á ákveðnu svæði að Fjallabaki á árunum 2009 til 2012 en ekki fékkst fjárveiting fyrir henni.
Nú hefur verið sett af stað rannsóknarverkefni við Háskóla Íslands þar sem þróa á aðferðir til að meta og greina breytingar og umfang slóða að Fjallabaki. Rannveig segir að Ferðamálastofa ætli að styrkja verkefnið til að greina og nýta loftmyndir og einnig til að fara í heimildaúttekt að sögulegum að uppruna slóðanna.