Á meðan sumir njóta aðventunnar og hlakka til, þjást aðrir af kvíða vegna álags í jólaundirbúningi. Sálfræðingur segir að jólakvíði geti komist á það stig að fólk þurfi að leita sér hjálpar. Hægt sé að vinda ofan af kvíðanum með því að spyrja sjálfan sig ákveðinna spurninga.
Á Egilsstöðum býr Ingunn Bylgja Einarsdóttir og núna er að byrja erfiður árstími. Jólin eru í aðsigi og ýmis verkefni knýja á, misnauðsynleg reyndar.„Þegar kvíðatilfinningin yfirtekur mig þá er þetta eins og að vera með grjót í maganum. Maður verður andstuttur og maður hættir að anda ofan í maga og ég fæ aukinn hjartslátt. Ég fer að einangra mig því ég upplifi að það sé svo erfitt að mæta á alla viðburði. Í mörg ár þá þreif ég allt húsið og það gerðist einu sinni að ég endaði grátandi á baðherbergisgólfinu á Þorláksmessu af því að mér fannst mér ekki hafa tekist að gera allt í tíma. Og ég var farin að upplifa það að þetta hafði áhrif á börnin mín og ég sem sagt ákvað það fyrir svona tveimur árum síðan að gera ekki svona mikið mál úr þessu,“ segir Ingunn Bylgja.
„Hvað myndi ég segja við bestu vinkonu mína?“
Hún hætti að skrifa jólakort, fór að kaupa kökurnar, dró úr þrifum og leyfði sér að sleppa jólaviðburðum sem hún upplifði sem álag. Ákveðinn kvíði er þó enn til staðar enda byggist hann gjarnan á órökréttum hugsunum. Til að vinda ofan af þeim er hægt að beita ákveðinni tækni. Sigurlín Hrund Kjartansdóttir er yfirsálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og hefur kennt hugræna atferlismeðferð (HAM). Þar lærir fólk að skrifa niður kvíðahugsanir og beita spurningum til fjarlægja sig frá þeim. Mikilvægt er að skrifa spurningar og svör niður á blað. „Og þá er gott að spyrja sig eins og: Hvað er það versta sem gæti gerst eða hvað myndi ég segja við bestu vinkonu mína ef henni liði svona, og mig langaði að gefa henni góð ráð? Að vera með einhvers konar dagbókarskráningu í gangi þar sem að maður listar bara niður hjá sér allt sem maður heldur að maður þurfi að gera og fara svo bara yfir það á röklegan hátt. Að spyrja sig í rauninni gagnrýninna spurninga um hugsanir sínar,“ segir Sigurlín.
„Vera bara ekkert í áreitinu“
„Maður gerir kannski eitt verkefni á dag. Í dag ætla ég að skreyta stofuna og morgun ætla ég að taka til í herberginu mínu. Maður tekur bara einn dag í einu og reynir að láta þetta ekki ná tökum á sér. Núna erum við kannski bara meira að njóta þess að föndra heima, skreyta í rólegheitum, reyna að ná góðum svefni og vera bara ekkert í áreitinu. Við gerum sem sagt góða laugardagshreingerningu fyrir jólin, bara léttskúrum og felum allt draslið, troðum því í skúffurnar og reynir bara að hafa þetta létt og þægilegt. Og þegar ég var farin að gera þetta þá minnkaði kvíðinn og stressið til muna,“ segir Ingunn Bylgja.
„Þegar fólk er hætt að geta sofið eða er mjög lengi að sofna, vaknar á nóttunni jafnvel í skelfingarköstum og svitnar mikið og er með hraðan hjartslátt, þetta er líkaminn að senda viðvörunarmerki og við verðum að hlusta á þau. Ef fólk er komið á þetta stig á það endilega að leita sér aðstoðar,“ segir Sigurlín.