Breskt pönk og hvítir strákar hljómar eins og kunnugleg vindátt í heimi rokksins og ef til vill tónlist almennt. En það er stundum eitthvað nýtt í gömlu roki eins og því sem hljómsveitin Idles frá Bristol á Englandi bjóða upp á.

Idles, Iðjuleysingjar, er eflaust rangnefni þar sem hljómsveitin er á tónleikaferðalagi um allan heim, með tvær plötur í farteskinu og voru tilnefndir bjartasta vonin á Brit Awards í ár. Idles spila heilnæmt pönk. Góðir strákar með gargandi hávaða. Þeir yrkja um eitraða karlmennsku, sjálfsást og berskjöldun en líka um vinnuþrælkun láglaunafólks og vilja taka innflytjendum opnum örmum. Nú í haust kom út nýjasta platan úr þeirra smiðju, Joy as an act of resistance, Gleðin sem andóf.

Idles gáfu út sína fyrstu smáskífu, Welcome, árið 2012 sem hljómar nær ekkert eins og tónlistin sem hljómsveitin gerir núna. Það varð einhver viðsnúningur – þeir fóru að finna reiði sinni og gremju annan farveg og með smáskífunni Meat árið 2015 mátti heyra þessa gírskiptingu greinilega. Stuttu eftir það – eftir að hafa verið hafnað af nokkrum plötuútgáfum – gaf hljómsveitin sjálf út fyrstu breiðskífuna, Brutalism, vorið 2017.

Nú í haust kom önnur breiðskífan út, Joy as an act of resistance eða Gleðin sem andóf. Sú plata hefur vakið mikla athygli og var í raun það sem kom þeim almennilega á kortið eftir nokkur ár í skugganum.

Rætt var við Árna Þór Árnason sem hefur haft augu og eyru á hljómsvetinni Idles um nokkurt skeið. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að ofan.