Nú um helgina kemur út bók- og vínylplötuverkið What Am I Doing With My Life? eftir Styrmi og Læknadeildina en platan er unnin upp úr gjörningum, eða svokölluðu nálastungurappi, sem Styrmir Örn Guðmundsson flutti víðsvegar um Evrópu 2017 og 2018.
Styrmir Örn hefur vakið athygli fyrir gjörninga sína þar sem hann skapar súrrealískar sögustundir í máli, myndum og með heimasmíðuðum sviðsmunum. Í gjörningaröðinni What Am I Doing With My Life? kom Styrmir fram sem sjálflærður og sjálfskipaður læknir og spann rímur og skrýtlur um vestræna læknisfræði - en hann segist hafa nokkrar efasemdir um gildi þeirra fræða.
„Það hafði verið myglusveppur í húsinu sem ég bjó í í Amsterdam og ég var farinn að þróa með mér astma. Ég fór til hefðbundins vestræns læknis sem sagði mér að fá mér ákveðið steralyf til að halda astmanum niðri. Mér leist ekkert á að vera að pústa einhverjum sterum í mig á hverjum degi,“ segir Styrmir. „Ég spurði hann um aukaáhrif af þessu, hann sagði að þau væru engin, nema bara röddin mín gæti breyst. Þá fékk ég alveg nóg. Ég tók ekki þessi steralyf, en hætti að reykja, fór að hugsa betur um mig, og fór að skrifa rímur um þetta. Í dag er ég laus við þennan astma.“
Styrmir ferðaðist um Evrópu með gjörninginn og fékk vini sína og kollega með sér í lið. Á hverjum stað bættumst við fleiri sjálflærðir læknar - geislalæknar, taugapúslarar, dulrænir hjartalæknar, kosmískir huggarar - læknadeildin stækkaði og óperan gerjaðist. Með nálastungurappi heiluðu Styrmir og félagar áhorfendur af álögum ýmissa félagslegra og pólitískra meina.
Að ferðalaginu loknu dró Styrmir svo loks gjörvalla læknadeildina sína inn í hljóðver og úr varð 12 tommu vínylplata og bók með sérútbúnum tónlistarteikningum, einni opnu fyrir hvert lag.
Styrmir Örn ræðir um vínylplötuna What Am I Doing With My Life? og rappar í Víðsjá á Rás 1 á þriðjudag, 30. apríl.