Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir gríðarlega skuldabyrði Orkuveitunnar valda því að fyrirtækið sé ekki greiðsluhæft nema gjaldskrá hækki.
Vegna þessa halda lánardrottnar að sér höndum og Orkuveitan getur ekki fjármagnað sig.
„Í samanburði við aðra landshluta er gjaldskráin í Reykjavík hagstæð... Það liggur í hlutarins eðli að fyrirtæki sem getur ekki greitt af skuldum sínum er ekki lánshæft," sagði Haraldur Flosi meðal annars í samtali við RÚV.
Miklar fjárfestingar og mikil gengisáhætta valda því að skuldabyrði Orkuveitunnar er orðin slík að lánardrottnar telja fyrirtækið ekki lengur geta staðið við skuldbindingar sínar nema því aðeins að tekjugrunnurinn sé styrktur. Lán voru tekin í erlendri mynt, til framkvæmda af ýmsu tagi, en við gengisfall krónunnar stökkbreyttust lánin án þess að tekjurnar breyttust að sama skapi nema í mjög litlum mæli. Þær eru að mestu í íslenskum krónum. Haraldur segir stöðuna vera afar erfiða og ekki verði hjá því komist að hækka gjaldskrána, eigi ekki illa að fara.