Það að eignast barn veldur straumhvörfum í lífi fólks. Það hefst nýr kafli. Sá veruleiki sem tekur á móti foreldrum fyrstu árin eftir fæðingu barns getur þó líka valdið straumhvörfum. Leitt til þess að foreldrar séu heima án tekna mánuðum saman, missi jafnvel vinnuna .Ef kerfið væri fullkomið væri í því samfella; fyrst færu foreldrar í fæðingarorlof og að því loknu tæki eitthvað annað við, dagforeldrar eða leikskóli. Því er ekki alltaf fyrir að fara.

Kerfið passar ekki á börnin

Handan orlofsins, sem sumir teygja eins og þeir mögulega geta með því að dreifa greiðslum, er oft gjá sem einhver verður að brúa; foreldrarnir sjálfir, og þá oftar mæður en feður, amma og afi, nú eða au-pair að utan. Bilið er mislangt en mörg dæmi um að annað foreldrið sé launalaust í meira en ár þar sem barnið fær hvorki inni hjá dagforeldri né í leikskóla. Það má kannski segja að það sé engin brú, foreldrarnir fikra sig bara ofan í gjána, og ganga yfir, fikra sig svo aftur upp úr henni, kannski með talsverðar skuldir á bakinu. Það getur munað öllu hvenær árs barn er fætt og kostnaður fjölskyldna vegna mánaðar til eða frá hlaupið á hundruðum þúsunda. Þá gerir undirmannað dagforeldrakerfi með ótal, ógagnsæjum biðlistum sem enginn hefur yfirsýn yfir það að verkum að margir foreldrar búa við óvissu, vita ekki hvenær þeir fá pláss og geta því ekki sagt til um það með neinni vissu hvenær þeir geta snúið aftur til vinnu. 

Konur fjórfalt eða fimmfalt lengur frá vinnu en karlar

Bilið sem þarf að brúa er misstórt eftir sveitarfélögum, í nýlegri skýrslu frá BSRB kemur fram að á landsbyggðinni komast börn að meðaltali inn í leikskóla 18 mánaða gömul en 22 mánaða á höfuðborgarsvæðinu. 

„Það sem við erum að horfa til er að við erum alltaf í þessum samanburði við hin Norðurlöndin og vitum að þar er samfella í kerfinu þannig að frá fæðingu tekur við fæðingarorlof og eftir það er tryggt dagvistunarúrræði. Hér á landi erum við með níu mánaða orlof, svo tekur við þriggja til sex mánaða umönnunarbil þar sem er ekki tryggt dagvistarúrræði fyrir hendi og það er aðalvandinn sem við sjáum. Þetta hvílir aðallega á mæðrum og þær eru fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði heldur en feðurnir.“  

Segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. Ljóst sé að þetta grafi undan stöðu kvenna á vinnumarkaði. Sums staðar eru engir dagforeldrar starfandi. Þar getur umönnunarbilið sem foreldrar þurfa að brúa verið meira en ár. En felst í þessu ósamræmi einhver mismunun? „Af því að þetta eru verkefni hvers og eins sveitarfélags fyrir sig, þá er svona já, ég hef allavega eki ki rannsakað það sérstaklega hvort þetta geti falið í sér mismunun. Hins vegar eru leikskólar skilgreindir sem hagsmunamál barna og út frá því sjáum við að það er ekki verið að veita sömu þjónustu eða stuðning fyrir börn. Það er einmitt spurning hvort það sé réttlætanlegt út frá hagsmunum barna,“ segir Sonja.  

Foreldrar ræða vandann á Facebook

Á Facebook er lokaður hópur foreldra sem ekki hafa fengið daggæslu fyrir börn sín þrátt fyrir að fæðingarorlofi sé lokið. Meðlimir hans eru rúmlega ellefu hundruð talsins og nokkur þungi í umræðunni, hvatt til aðgerða. Sonja telur að þrýstihópurinn hverju sinni sé kannski ekki mjög sterkur. Þetta tímabil gangi yfir og að því loknu sé kannski ekki sami hvati til að standa í baráttu. Hún telur þó að þetta sé að breytast. „Mér finnst umræðan núna vera í þá áttina að það skilja fleiri hvaða áhrif þetta hefur á samfélagið allt og bæði út frá hagsmunum barna og tækifærum foreldra og möguleikum á vinnumarkaði. Ég held við séum meira sammála um að þetta sé brýnt vandamál fyrir okkur öll, ekki bara foreldra sem standa í þessum vandræðum hverju sinni.“ 

Lengra bil en BSRB talar um

Það er reynsla margra þeirra sem svöruðu fyrirspurn Spegilsins að umönnunarbilið sé oft lengra en 3-6 mánuðir. Þegar foreldrar ákváðu að taka orlof saman að hluta breikkaði bilið. Þá fá börn einstæðra foreldra minni tíma heima því einungis einhleypir foreldrar sem hafa gengist undir tæknifjóvgun, ættleitt barn eða tekið barn í fóstur, eiga rétt á allt að níu mánaða orlofi. Hinir fá bara sex. 

„Þú verður að bera virðingu fyrir vinnuveitandanum“

Ólöf Jakobsdóttir og Jóhannes Tryggvason eiga níu mánaða barn. Frá því í haust hafa þau verið á biðlistum hjá tugum dagforeldra en ekkert fengið. Þau hafa reynslu af því hvað kerfið getur verið mikið ólíkindatól. Fyrsta mars lauk orlofi Ólafar og í lok febrúar hringdi hún í vinnuveitandann og greindi frá því að hún kæmist ekki í vinnu. Þá var ráðin afleysing í hennar stað fram að hausti. Tveimur dögum síðar fékk barnið pláss að vísu nokkrum póstnúmerum frá heimili þeirra. 

„Þannig að barnið er komið til dagmömmu en ég er enn heima. Það var búið að skrifa undir það og ganga frá því. Maður verður líka að bera virðingu fyrir vinnuveitandanum, getur ekki snúið honum hægri vinstri. Svo er barnið bara níu mánaða, mér finnst hún svolítið lítil til að vera alla daga hjá dagmömmu, við allavega borgum plássið og höldum því og svo veit ég ekki hvort hún verði nokkuð af ráði.“ 

Gleymt eftir mánuð

Jóhannes spáir því að eftir mánuð verði þau búin að gleyma þessu og hætt að nenna að hanga í Facebook-hópnum með hinum. Þetta er þriðja barn þeirra og Ólöf segir þau því hafa vitað hvað þau voru að fara út í. „Löngu áður en við áttum barnið vorum við búin að reikna það út að við þyrftum að vera tekjulaus í einhvern tíma, þar af leiðandi ekki að stækka fasteign fyrr en dagmömmutímabilið er búið. Maður er líka að heyra að fólk þurfi að segja upp leigu eða selja fasteignir og flytja inn á foreldra sína. Þetta er svo rosalega erfitt tímabil hjá mörgum, frá svona sex til níu mánaða þar til barnið kemst til dagmömmu. Svo kosta þær upp í 87 þúsund á mánuði hefur maður heyrt sem er út af kortinu.“ 

„Síminn þarf að vera hlaðinn og hljóðið á“

Ólöf gagnrýnir líka dagvistunarkerfið, segir það ógagnsætt. „Ég var með dóttur okkar á biðlista í fjórum póstnúmerum hjá örugglega fjörutíu dagforeldrum. Maður veit ekkert hvar maður er staddur og af því þetta er svo ógagnsætt eru þetta svo miklar geðþóttaákvarðanir hjá dagmömmum, svo kemur frænka og hún fær plássið eða dóttir vinkonunnar eða eitthvað. Við til dæmis áttum pláss á einkareknum leikskóla og fengum svo bara símhringingu um að við fengjum það ekki því það hefðu fæðst svo mörg börn í hverfinu og hún ætlaði frekar að taka þau inn. Maður er svo varnarlaust, hefur ekkert í höndunum, verður bara að segja já ókei. Svo verður maður að passa að síminn sé hlaðinn og kveikt á hljóðinu til að taka við símtalinu um að maður sé komiðnn með dagmömmu og ef hún er í klukkutíma frá heimili þínu verðuru samt að segja já því þú hefur ekki val.“ 

Tryggt úrræði

Ólöf telur kerfið hafa grafið undan sínum starfsframa. Hún var heima með miðjubarnið í eitt og hálft ár og það stefnir í að hún verði jafnlengi heima með það yngsta. Þau telja brýnt að lengja orlofið, það sé tímaskekkja að senda níu mánaða börn í gæslu til einhvers úti í bæ. Þá þurfi að tryggja úrræði að orlofi loknu.  Jóhannes segir að það mætti ýta undir betra úrval af ungbarnaleikskólum eða gera kerfi dagforeldra gegnsærra. „Þetta er svo sundurtætt, þú veist aldrei hvar þú ert staddur, hvort þú færð pláss eða ekki.“ Ólöf segir að það þyrfti bara að greiða foreldrum fyrir að vera heima þar til barnið kemst til dagforeldris.

Heimgreiðslur, þjónustutrygging, foreldragreiðslur 

Margir úr Facebook-hópnum eru sammála Ólöfu, finnst að foreldrar eigi að fá greitt þar til barn kemst að hjá dagforeldrum. Sums staðar fá foreldrar sem ekki koma börnum sínum að hjá dagforeldrum eða leikskólum að loknu fæðingarorlofi greitt. Foreldragreiðslur tíðkast nú til dæmis í Vesturbyggð þar sem dagforeldrar hafa ekki fengist til starfa, 27.950 á mánuði fyrir hvert barn foreldra í sambúð, 38 þúsund krónur til einstæðra foreldra. Greiðslurnar miðast við áður samþykktar niðurgreiðslur til dagforeldra. Seltjarnarnes samþykkti í byrjun mars að greiða foreldrum sem fá ekki pláss fyrir börn sín og þurfa að vera með þau heima mánaðarlegar greiðslur í allt að ellefu mánuði. Greiðslurnar miðast við niðurgreiðslur sem ella færu til dagforeldra. Fyrir 8 stunda vistun eru greiddar 66 þúsund krónur á mánuði. Þessar greiðslur sem áður voru kallaðar heimgreiðslur eða þjónustutrygging hafa reglulega dúkkað upp síðastliðin ár og áratugi og verið umdeildar. Í Reykjavík var þjónustutrygging innleidd árið 2008 í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokksins. Við meirihlutaskipin 2010 voru þessar greiðslur lækkaðar niður í 20.000 kr. og árið 201 voru þær felldar niður. Ekki voru allir foreldrar í hópnum hrifnir af þessari hugmynd, sumir sögðu þær fínar til bráðabirgða, aðrir að þær væru lágar og til þess fallnar að festa annað foreldrið heima. 

Amma og afi, uppsögn eða au-pair?

Foreldrarnir tókust á við þetta tímabil með mismunandi hætti. Margir dreifðu orlofinu. Það má því kannski segja að lenging orlofs sé víða orðin að veruleika  en sá sem er í orlofi er þá oft að fá um 40%-70% tekna sinna í stað 80%. Sumir unnu hlutavinnu og fengu foreldra sína eða ættingja til að passa á móti, sumir tóku launalaust leyfi, sumir fóru í fjarnám, þá var nokkuð um að fólk fengi til sín au-pair. Spegillinn heyrði frá konu sem býr í sveitarfélagi úti á landi þar sem eru engir dagforeldrar, hún segir töluvert um það að fólk þar ráði au-pair til að brúa bilið og gerir ráð fyrir að fara þá leið sjálf. Hún og hennar maki hafi ekki efni á að dreifa fæðingarorlofinu á fleiri mánuði en níu og það komi betur út að þau séu bæði á vinnumarkaði og greiði au-pair. Auðvitað henti þessi lausn ekki öllum enda ekki allir með auka herbergi, þá kæri ekki allir sig um að treysta einni manneskju fyrir barninu. Nokkur dæmi voru um að mæður hefðu þurft að segja upp starfi sínu til að vera heima með barnið og sum þeirra voru orðin tveggja og hálfs árs þegar þau komust inn á leikskóla. Foreldrar þá kannski búnir að brúa sjálfir meira en ársbil.

Fékk sér vinnu á leikskóla - þar með forgang

Sumir ákváðu að finna sér nýjan starfsvettvang í þeim tilgangi að koma barninu fyrr inn í leikskóla. „Konan mín sagði upp vinnunni og fór að vinna á leikskóla til þess að koma barninu að í gæslu að loknu 12 mánaða fæðingarorlofi. Við vorum án gríns næstum flutt úr Reykjavík,“ skrifar faðir.  Börn starfsmanna á leikskólum njóta forgangs þegar tekið er inn. 

Ekki allir sem telja sig hafa efni á orlofi

Tekjuskerðingin er að sögn margra foreldra í grúppunni gríðarleg og sumir segja álagið bitna á geðheilsunni. Dæmi voru um að það foreldri sem ekki var heima sæi sér ekki fært að taka orlof af fjárhagsástæðum. Einn skrifaði: „Ég væri nú meira en til í það ef orlofið væri hærra. Þetta er meira spurning um að þurfa að vinna frekar en að vilja ekki taka orlofið. Nú vona ég allavega að flestir aðrir feður séu þannig þenkjandi.“ Móðir skrifaði: 

„Maðurinn minn getur ekki tekið sér fæðingarorlof vegna minnar tekjuskerðingar, en ætlar að taka 2 vikur í sumarfrí með mér í kjölfar barnsburðar. Við horfum svo fram á það, ef við verðum mjög heppin, að barnið komist að hjá dagforeldri haustið 2019. Þá eru þarna 4 mánuðir sem við þurfum að brúa, en hugsun mín nær ekki svo langt enn sem komið er og það veldur mér miklum kvíða. Au pair kemur ekki til greina á öllum heimilum. Þá spyr maður sig hvað megi leggja á aldraðar ömmur, hvort við getum farið í eitthvað víxl með sumarfrí okkar, getur maður ráðið ungling í fjölskyldunni eða farið með barnið í vinnu að einhverju leyti? Ekkert af þessu er ákjósanlegt og alls ekki allt gefið.“

Kvíðir frekari barneignum

Þá hefur kerfið eins og það er í dag áhrif á viðhorf sumra til frekari barneigna. Kona sem stefnir að því að eignast annað barn sem fyrst segir að maginn á henni fari í hnút við að hugsa um það. Þau hjónin viti ekki hvort þau geti leyft sér að eignast annað barn því aðstæður bjóði ekki upp á það. 

„Maðurinn minn á ennþá 1 mánuð eftir af fæðingarorlofi sínu en við höfum ekki efni á því að nýta hann. Við höfum mikið rætt það að koma með annað barn og planið mitt var að vera orðin ófrísk aftur þegar ég útskrifast um jólin en maginn á mér fer í kvíðahnút við að hugsa um það. Ég velti því fyrir mér hvort einhver eigi eftir að vilja fá mig nýútskrifaða og ófríska inn á vinnustað og þar sem ég er launalaus í háskólanámi þá þyrfti ég að lifa á einhverjum smá styrk í fæðingarorlofinu. Við hjónin vitum hreinlega ekki hvenær við eigum að leyfa okkur að eignast annað barn því aðstæður bjóða hreinlega ekki upp það. Ef ég næ ekki að vinna í 12 mánuði að lágmarki áður en barnið fæðist þá erum við screwed, svona á lélegri íslensku.“ 

Safna á kostnað heilsunnar

Nokkrir þeirra sem svöruðu fyrirspurn Spegilsins sögðust vera að eða ætla að reyna að búa í haginn og safna til að komast í gegnum þetta tímabil, sumir jafnvel á kostnað heilsunnar. 

„Ég og minn maður eigum von á okkar fyrsta barni i maí. Við erum bæði læknar og sjáum fram á að annað okkar verði frá vinnu alltof lengi sem bitnar á fjárhag okkar og sjúklingum. Það sem við erum að gera til að ,,undirbúa" okkur fyrir þetta tekjuleysi er að vinna ca 150-200% vinnu og leggja fyrir núna sl. mánuði. Ég er gengin 30 vikur en vinn myrkrana á milli með tilheyrandi verkjum og þreytu til þess að safna upp svo við getum borgað reikninga þegar fæðingarorlofinu lýkur. Þetta er svo langt frá því að vera í lagi. Maðurinn minn er norskur og við erum ákveðin í því að næstu börn munu fæðast og búa i Noregi. Barneignir eiga að vera gleðiefni foreldra, ekki fjárhagsáhyggjur og streita útí hið óendanlega.“

Sagði ein móðir.

Önnur kona sem vill eignast annað barn sér fram á að þurfa að taka heilt ár launalaust. Þau fengu óskráða dagmömmu til að annast fyrra barnið en sú er nú flutt úr landi. Konan segist ætla að vera í 135% vinnu í ár og spara sem mest til að geta tekist á við tekjutap í kjölfar næsta fæðingarorlofs. 

Tímasetningin

Sumir hugðust reyna að eignast næsta barn á réttum tíma þannig að það passaði sem allra best inn í kerfið. Það skiptir nefnilega miklu. Þetta skrifaði ein móðir: 

„Ég og konan mín erum báðar menntaðar og í góðum stöðum og höfum því kannski ekki áhyggjur af því að missa vinnuna en það hefur mikil áhrif á starfsframann að geta ekki skipulagt sig og treyst á að geta mætt aftur til vinnu á ákveðnum tíma. Þess vegna höfum við rætt að skipuleggja næsta barn miðað við að komast í dagvistun.“

Önnur móðir sem svaraði fyrirspurn Spegilsins sagði að dóttir hennar, fædd í apríl hafi komist í leikskóla 28 mánaða, dóttir vinahjóna hennar og mannsins hennar, fædd í janúar sama ár komst inn 19 mánaða. Foreldrar aprílbarnsins þurftu að borga 60 þúsund krónur fyrir daggæslu í átta mánuði en foreldrar janúarbarnsins 25 þúsund krónur á mánuði í leikskólagjöld. Munurinn á útgjöldum heimilanna vegna þessa nam því 420 þúsund krónum. Móðirin veltir því upp hvort þetta sé réttlætanlegt og gagnrýnir aðgerðarleysi stjórnvalda.