Eftirlíking af Geysi var sett upp í ánni Spree í Berlín í gær. Goshverinn hefur vakið mikla athygli í borginni en uppsetningin er hluti af listahátíðinni Pop art Pop-up festival í Berlín sem nær hápunkti á laugardaginn. Listamaðurinn Odee, Oddur Eysteinn Friðriksson, segir að Pop art Pop-up listahátíðin í Berlín fái ómetanlega athygli.

Fjölmargir íslenskir listamenn koma fram á hátíðinni eða sýna verk sín. Þeirra á meðal eru Odee, Einar Örn Benediktsson, Hjalti Parelius og Ingvar Björn Þorsteinsson sem opna gallerísýningu í kvöld klukkan sjö að þýskum tíma. Odee segir að með hátíðinni vilji listamennirnir kynna íslenska menningu fyrir Berlínarbúum. 

Ingvar Björn skipulagði Pop art festival í Hafnarfirði í fyrra og hann er hugmyndasmiður hátíðarinnar. Hátíðin hafi verið færð til Berlínar í ár og Odee segir að áhuginn sé gríðarlegur. „Þetta er alveg lygilegt. Ég mætti áðan og rétt náði áður en opnað var fyrir Geysi og fannst ótrúlegt að sjá allt fjölmiðlafólkið,“ segir Odee en Geysir í ánni Spree fær mikla athygli. Hann segir að líklega sé mikið af athyglinni EM í knattspyrnu að þakka og góðri kynningu í Berlín. 

Á laugardaginn verða tónleikar með íslenskum hljómsveitum og tónlistarfólki á skemmtistaðnum IPSE í Berlín og búist er við húsfylli. 

Hægt er að sjá Geysi gjósa í Berlín í spilaranum hér að ofan.