Halla Þórlaug Óskarsdóttir fjallar um undirbúning ef stríð skellur á.


Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar:

Eitthvert sumarið, ætli ég hafi ekki verið svona 10 ára, sat ég í bíl með foreldrum mínum á leið heim úr hálendisferð. Mamma og pabbi sátu fram í og spjölluðu eflaust saman en ég sat aftur í og skoðaði Vegahandbókina. Ég var ekki að fletta í gegnum vegi landsins, heldur var ég niðursokkin í eina blaðsíðu í miðri bókinni. Hún skartaði teikningu af fjallgöngugarpi og í kringum hann var gátlisti fyrir þá sem hugðu á langar göngur í óbyggðum. Ég var sjálf á leiðinni heim úr einhvers konar óbyggðaferð, en ég hafði ekki þurft að bera ábyrgð á neinu sjálf. Ég var í öruggri umsjón foreldra minna. En mig dreymdi um að fara sjálf, helst alein, í langa, háskalega göngu. Pakka í stóran bakpoka og leggja af stað. Þurfa að redda mér. Og gátlistinn í Vegahandbókinni flutti mig hálfa leið í sjálfsbjargarleiðangur út í óbyggðir. Þurrmatur, prímus, eldspýtur, aukaullarsokkar. Ég þurfti bara að bíða nokkur ár.

Þegar ég kom heim fóru leikir mínir að snúast mikið um undirbúning þessarar fjallgöngu. Ég pakkaði vandlega ofan í bakpoka, en aldrei fór ég í gönguna.

Nokkrum árum síðar fór ég svo loksins í bakpokaferðalag, reyndar um byggðar borgir Evrópu, en þá var ég ekkert að pæla í að taka með mér harðfisk eða vasaljós. Allar nauðsynjar er hægt að kaupa, bæði í Rúmeníu og Róm, og svo var ekki þörf á stórtækum sjálfsbjargarbúnaði í þessu ferðalagi hvort sem var. Við gátum treyst á rafmagn og rennandi vatn á langflestum stöðum. Myndavél, dagbók og debetkort var það sem ég þurfti.

Í borgum og bæjum getum við yfirleitt reitt okkur á að á næsta eða þarnæsta götuhorni sé hægt að kaupa það sem okkur bráðvantar.

Mikilvægar upplýsingar frá almannavörnum

Hér í Gautaborg hefur óþægileg rödd orðið háværari síðustu vikur og mánuði. Röddin hvíslar: „Ertu tilbúin?“ „Veistu hvað þú átt að gera?“ „Lifir þú af?“. Í síðustu viku var þetta svo stafað ofan í okkur á ótal strætóskýlum. „Getur þú bjargað þér í þrjá sólarhringa?“ stendur þar stórum stöfum á auglýsingaskiltum, svart á hvítu, og svo eru myndir af nokkrum hlutum: Vatnsbrúsa, teppi, vasaljósi, eldspýtum, dósamat, rafhlöðum og auðvitað útvarpi. Og dósaopnara.

Þessar auglýsingar koma ekki alveg eins og þruma úr heiðskíru lofti. Síðasta vor var nefnilega sendur út bæklingur á öll heimili Svíþjóðar: „Ef krísa eða stríð skellur á. Mikilvægar upplýsingar fyrir íbúa Svíþjóðar.“

Inngangurinn var eitthvað á þessa leið:

„Til íbúa Svíþjóðar:

Þessi bæklingur er sendur út til allra heimila í Svíþjóð af ríkisstjórninni. Almannavarnir bera ábyrgð á innihaldi hans. Bæklingnum er ætlað að hjálpa okkur að vera undirbúin fyrir allt frá alvarlegum slysum og veðurofsa til netárása í hernaðarátökum.

Margir kunna að hafa áhyggjur af óöruggum heimi. Þótt Svíþjóð sé öruggari en mörg önnur lönd, þá er öryggi okkar og sjálfstæði ógnað. Friður, frelsi og lýðræði eru gildi sem við verðum að vernda og styrkja á hverjum degi.

[...]

Ef þú ert tilbúin/n, leggur þú þitt af mörkum til að landið komist sem best undan álagstímum.

GEYMIÐ BÆKLINGINN.“

Dramatískur inngangur og innihaldið var ekkert minna dramatískt.

Á fyrstu síðu er krísan skilgreind. Hiti og rafmagn fer, sem flækir bæði geymslu matvæla og matreiðslu. Matur í verslunum klárast. Vatnsrennsli í krana og salerni stöðvast. Bensínið klárast. Greiðslukort og hraðbankar virka ekki. Internetið ekki heldur. Almenningssamgöngur hætta að ganga. Það verður erfitt að nálgast nauðsynleg lyf.

Á næstu síðum eru frekari upplýsingar um mismunandi krísur. Á miðjuopnunni er svo gátlisti yfir þá hluti sem gott er að hafa heima.

Upplýsingarnar í bæklingnum eru spennandi, áhugaverðar og kveikja dálitla ævintýraþrá. En líka ótta. Og myndirnar sem prýða síðurnar eru mjög ógnvekjandi. Þyrlur, skriðdrekar, vopnaðir hermenn, orrustuflugvélar og fólk á flótta.

Svipaður bæklingur í kalda stríðinu

Sænska ríkið sendi út sambærilega bæklinga árið 1943 og 1961, í seinni heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Þar var þó bara talað um stríð, en ekki krísu, kannski eðli málsins samkvæmt. (Þá var líka útbúin stutt heimildamynd á Íslandi og sýnd í Ríkissjónvarpinu um það hvernig ætti að bregðast við kjarnorkuárás, sem var helsta ógn þessa tíma. Leiðbeiningar mátti líka finna í símaskránni.)

Í rauðum kassa í sænsku bæklingnum tveimur stendur svo skýrum stöfum að Svíþjóð muni aldrei gefast upp fyrir óvininum.

Það stendur reyndar líka í nýja bæklingnum sem sendur var út í vor.

Heimsendabókmenntir

Þessi óljósa ógn er á allra vörum hér í Gautaborg. Í síðustu viku fór ég á fyrirlestur hjá rithöfundi á hverfisbókasafninu mínu. Höfundur þessi, sem heitir Lars, sérhæfir sig í dystópískum heimsendabókmenntum. Í hverri einustu bók hans hefur samfélagið eins og við þekkjum það liðið undir lok. En hér var hann að halda fyrirlestur um undirbúning fyrir krísur.

Í bókum hans, sem ég hef ekki lesið, hefur samfélagið þurft að endurskilgreina sig – byrja upp á nýtt. Mér fannst svolítið áhugavert að spennusagnahöfundur hafi verið fenginn til að fjalla um krísuundirbúning á bókasafninu. En eftir á að hyggja fannst mér kannski áhugaverðara að velta fyrir mér hvað það þýddi ef samfélagið neyddist til að endurskilgreina sig.

Tækninýjungar

Í bæklingnum frá árinu 1961 er ekki minnst einu orði á hleðslukubb fyrir snjallsíma eða snúru til að hlaða símann í bílnum. Það sem við köllum daglegar nauðsynjar í dag krefjast mun meiri orku heldur en þær sem fólk reiddi sig á á miðri síðustu öld. Snjallsímar, tölvur og internet.

Helstu gögn sem ég þarf í neyð geymi ég í skýi og sæki þau með tölvunni minni eða símanum. Líka peningana mína. Ég les fréttir á Internetinu. Hlusta jafnvel á útvarpið gegnum tölvuna eða símann. Ég er vön því að geta beðið Google um aðstoð þegar ég man ekki hluti. Eða kann ekki hluti.

Ég treysti á netið. Það er vandamál.

Hverju er hægt að treysta?

Í öllum bæklingunum þremur, frá árinu 1954, 1961 og 2018 er talað sérstaklega um að þjóðfélagsþegnar skuli vara sig á lygum.

„Ekki trúa sögusögnum og ekki dreifa neinum sögum sjálf.“

„Hlustið á útvarpið með gagnrýnum huga. Hægt er að herma eftir jafnvel þekktustu útvarpsröddum,“ segir í bæklingnum frá 1961.

„Eru þetta staðreyndir eða skoðanir?“

„Eru heimildirnar áreiðanlegar?“ spyrja almannavarnir árið 2018.

Ég fór á fyrirlestur um bókina Factfulness eftir Hans Rosling á bókamessunni í Gautaborg þarsíðustu helgi. Áður en fyrirlesturinn hófst voru áhorfendurnir beðnir um að taka stutta könnun. Hún samanstóð af þrettán spurningum sem vörðuðu stöðu heimsins. Til dæmis: Hversu mörg prósent ársgamalla barna eru bólusett í heiminum? Hefur fátækt heimsins helmingast, staðið í stað eða aukist um helming á síðustu 20 árum? Mun hitastig jarðar lækka, hækka eða standa í stað á næstu 10 árum?

Í stuttu máli sagt grútféllum við flest á þessu prófi. Tilfinning okkar fyrir stöðu heimsins var skökk og skæld.

Á bókamessunni var reyndar víða verið að ræða einmitt þetta, falskar upplýsingar, falsanir, sögusagnir, æsifréttir, ofsareiði á internetinu og dreifingu lyga. Það var ekki opinbert þema hátíðarinnar, en eiginlega sterkasta þemað samt. Rithöfundar, fjölmiðlafólk og útgefendur hafa áhyggjur af stöðu sannleikans. Og höfum við ekki öll áhyggjur? Það eru allir að tala um þetta.

En ég veit ekki hverju ég á að trúa. Ég veit ekki hverjum ég get treyst.

Við megum engan tíma missa

Ef krísa eða stríð skellur á...

Við ERUM í krísu.

Á meðan við dreifum mýtum og sögusögnum á internetinu er hitastig jarðar að hækka - jafnt og þétt. Í Speglinum hér á Rás 1, síðastliðinn mánudag, kom fram að við höfum það bil 12 ár til þess að gjörbreyta öllum okkar lifnaðarháttum, ef við ætlum að gefa mannkyninu séns á þessari jörð.

Krísan er komin og stríðið er okkar allra, stríð gegn lygum og fölskum fréttum. Við ættum öll að vera hluti af andspyrnunni gegn sögusögnum, æsifréttamennsku og valdamiklum körlum sem opinberlega segjast ekki hafa áhuga á þessu loftslagskjaftæði.  

Áróður í æsifréttastíl er aldrei af hinu góða, jafnvel þótt markmiðið sé göfugt, svo sem til að auka meðvitund um jafnrétti eða kosti bólusetninga. Samfélög heimsins eru ekki öll að fara til fjandans, það gerist ýmislegt jákvætt í heiminum, þó fréttirnar endurspegli það ekki alltaf.

Hér koma svörin við spurningunum sem ég nefndi áðan:

88% ársgamalla barna í þessum heimi eru bólusett og fátækt hefur helmingast á síðustu 20 árum.

En hlýnun jarðar er staðreynd.

Hræðsluáróður?

Það er eitthvað einkennilegt við það að fá bækling sendan í pósti frá ríkinu - stofnun sem ég ætti allavega að geta treyst - sem segir mér að undirbúa mig undir það versta. Vera viðbúin.

En af hverju fæ ég þennan bækling núna?

Í bæklingnum stendur að það sé mikilvægt að dreifa ekki lygum. Auðvitað er engin lygi að það er gott að vera undirbúinn ef krísa eða stríð skellur á. En í innganginum stendur líka að öryggi og sjálfstæði Svíþjóðar sé ógnað, en ekki af hverju. Hvort eru þetta forvarnir og fræðsla eða hreinlega hræðsluáróður?

Kannski er hægt að líta á þennan bækling sem áminningu um ábyrgð okkar sem samfélag heimsins. Við getum ekki treyst á að stjórnvöld hjálpi okkur öllum í krísu. Við þurfum að bera okkar samfélagslegu ábyrgð, á okkur sjálfum og nágrönnum okkar líka.

Krísa er þegar samfélagið virkar ekki eins og við erum vön. Rafmagnið fer eða vatnið, samgöngur liggja niðri, olía þrýtur. Eitthvað svona. Og þá eigum við að vera tilbúin til að bjarga okkur í þrjá sólarhringa. Eiga vatnsbirgðir, dósamat, súkkulaði, bækur og spil.

Krísa er þegar skógar brenna, jöklar bráðna og flóð verða vegna hlýnunar jarðar. Þá er gott að eiga dósamat og súkkulaði, í þrjá sólarhringa.

Krísa er þegar olían klárast og kóralrifin hverfa. Þá er gott að eiga bækur og spil. Ég er ekki búin að útbúa krísukassa. En ég er hrædd um að ef ég fer að undirbúa slíkan kassa fari ég að vonast eftir krísu.  Svona eins og að vera búin að pakka í bakpoka fyrir ævintýraferð í óbyggðum.

Krísa er þegar samfélagið virkar ekki eins og við erum vön. En hvað myndi það þýða ef samfélagið þyrfti að endurskilgreina sig?