Sigmundur Davíð Gunnlausson forsætisráðherra segir að meta þurfi aðstæður hér á landi í ljósi hryðjuverkanna í París. Hann hittir innanríkis- og utaríkisráðherra ásamt lögreglu vegna málsins eftir helgi. Sigmundur óttast að atburðirnir geti breytt því hvernig Vesturlandabúar lifi sínu lífi.
„Manni bregður auðvitað alveg svakalega að sjá þetta gerast eins og öllum sem að fylgjast með þessu. Þetta eru auðvitað hryðjuverk sem eru annarrar gerðar en við höfum séð áður í nágrannalöndnum þar sem margir menn á mismunandi stöðum hefja í rauninni bara stríð á götum Parísar. Og þessi fjöldi sem er fallinn nú þegar er það mikill að maður á erfitt með að taka þetta inn.“
Erfitt sé að koma alveg í veg fyrir svona atvik þegar menn eru tilbúnir til að fórna sjálfum sér í sjálfsmorðsárásum.
„Og auðvitað óttast maður að þetta geti breytt því hvernig við lifum hérna á Vesturlöndum, að þetta dragi úr öryggi okkar og verði til þess að hlutir sem við töldum jafnvel sjálfgefna verði það ekki lengur.“
Meta aðstæður á Íslandi
Sigmundur segir að Íslendingar vinni með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum og fylgist með þróun mála. Í gærkvöld fór í gang viðbragðsáætlun þar sem lögreglan hér setti sig í samband við lögreglu í nágrannalöndunum til að meta hvort hætta sé á slíkum hryðjuverkum annars staðar, og hvort hætta sé á þeim hér á landi.
„Menn meta það svo að það sé ekki yfirvofandi hætta hér núna. Hins vegar munu menn í framhaldinu þurfa að meta hvort þetta breyti aðstæðum hér og því með hvaða hætti við þurfum að vera viðbúin og með hvaða hætti við störfum með öðrum ríkjum. Ég geri ráð fyrir að ég muni hitta innanríkis- og utanríkisráðherra á fundi ásamt lögreglu þar sem að við munum í framhaldinu skoða það hvort þetta kalli á einhverjar ráðstafanir af okkar hálfu.“
Verður það strax í dag?
„Ég á ekki von á því að það verði í dag. Það verður væntanlega ekki fyrr en á mánudag en lögreglan mun í dag auðvitað fylgjast áfram með og meta stöðuna í samráði við kollega sína á Norðurlöndunum.“
Umræðan getur verið hættuleg
Nú fór nokkuð hatrömm umræða af stað á samfélagsmiðlum hér á landi strax í gærkvöldi, ótti við innflytjendur og annað í þeim dúr, einhverjir miðlar hreinlega fjarlægðu rasísk ummæli, hvað finnst þér um þessa umræðu?
„Ég var svo sem ekki að lesa þessar athugasemdir á miðlunum núna frekar en áður. En þar sér maður oft auðvitað alveg furðulega hluti. Og svo þegar svona atburðir verða setur það kannski af stað slíka umræðu. En það er mikilvægt að menn hafi í huga að þetta verði ekki til þess að skapa sundrungu og tortryggni í samfélögum Vesturlanda um fram það sem því miður er orðin raunin.“
Heldurðu að þessi umræða geti jafnvel verið hættuleg?
„Hún getur sannarlega verið það. En það getur líka verið hættulegt að reyna að stoppa eða banna umræðu. Það er þá betra að rangfærslur komi í ljós og það sé þá hægt að leiðrétta þær,“ segir Sigmundur Davíð.