„Það sem hefur kannski verið að há okkur svolítið er að halda ekki dampi, við þurfum að halda áfram þar sem frá var horfið í dag [í gær], nýta færin aðeins betur og þá getum við unnið þær á góðum degi.“ sagði Karen Knútsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, eftir 25-26 tap Íslands gegn Svíþjóð í æfingaleik á Ásvöllum í gær. Liðin mætast aftur á morgun.

Vantaði ákafa í leik Svía

Isabelle Gulldén, leikmaður sænska liðsins, sagði eftir leikinn að ákafa hafi vantað í leik sænska liðsins þrátt fyrir sigur.

„Fyrst og fremst fannst mér vanta meiri ákafa. Við eigum ekki að bíða í 55 mínútur með að brjóta almennilega á þeim. Við þurfum að gefa allt í leikinn frá upphafi og hugarfarið er það sem við þurfum fyrst og fremst að breyta, því þá fylgir góð spilamennska,“ sagði Gulldén.

Þurfa að nýta færin betur

„Við þurfum fyrst og fremst að nýta færin okkar betur. Við förum með mörg góð færi - við þurfum að nýta þau betur - hraðaupphlaup, vítaköst og annað. Þetta þarf allt að sitja ef við ætlum að vinna,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari eftir leikinn og segir að leikmenn liðsins hafi tækifæri til að bæta úr því í leik morgundagsins þar sem þær hafi lært inn á markmenn liðsins í gær.

„Nú erum við búin að læra og sjá markmennina. Við þurfum að gefa okkur smá tíma á þær, skoða stöðurnar sem koma og þá höfum við alla möguleika.“

Ísland mætir Svíþjóð klukkan 16:00 á morgun og verður leikurinn sýndur beint á RÚV. Útsending hefst klukkan 15:45.