Vitnisburður Michaels Cohens, fyrrverandi lögmanns Donald Trumps Bandaríkjaforseta, gefur Demókrötum  forsendur til þess að fara fram á frekari gögn um Trump, segir Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur. Forsetinn verði ekki ákærður fyrir önnur brot en þau sem hann fremur í embætti.

Silja Bára segir ekki margt nýtt hafa komið fram en vitnisburðurinn styrki þann málflutning að Trump hafi vitað af samskiptum sinna manna við Rússland í aðdraganda kosninganna. „Það eru kannski nokkur atriði sem voru hvað mest sláandi og það er að Cohen sýnir afrit af ávísunum sem eru greiðslur til hans eftir að Trump varð forseti. Það er ekki bara í aðdraganda kosninganna heldur eftir að hann var kominn í Hvíta húsið. Lýsir samskiptum þar sem forsetinn talar um greiðslur til hans sem voru ætlaðar til þess að þagga niður í til dæmis Stormy Daniels,“ sagði Silja Bára í Morgunútvarpinu á Rás 2.  

Repúblikanar ná ekki að „þagga þetta niður lengur“

Silja Bára segir að breytt samsetning í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafi gert skýrslutöku gærdagsins yfir Cohen mögulegar. Ekki hefði orðið af þeim hefðu Repúblikanar haldið meirihluta í kosningunum í nóvember. „Þeir ná ekki að þagga þetta niður lengur og það er kannski eitt stærsta málið. Það er farið að ræða þetta núna.“

Demókratar geti kallað fram gögn og birt þau. „Sem að mun gera Trump erfiðara um vik að sverja af sér, eins og Cohen lýsti svo vel, þegar hann segir: Það er ekkert að gerast í Rúslandi, það eru engir samningar í gangi við Rússland. Það verður erfiðara eftir því sem frekari gögn koma fram. Í yfirheyrslunum fengu Demókratar í raun og veru þannig svör að þeir hafa núna forsendur til þess að fara fram á frekari gögn. En mér þykir ólíklegt að það verði neitt annað en kosningarnar 2020 sem muni sýna það hvort að þetta hafi einhver áhrif á Trump. Hann heldur áfram að mara þarna í 35 til 40 prósent stuðningi. Hvort að Repúblikanar fari að sjá sér hag í því að snúa við honum baki. Það er eiginlega stóra málið.“

Spurði út í skattamál forsetans

Þingmenn fái mjög stuttan tíma til að spyrja vitni sem komi fyrir nefndina. Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður Demókrataflokksins, hafi notað sinn tíma til þess að spyrjast út í skattamál forsetans, en þær upplýsingar hefur forsetinn ekki viljað gera opinberar. „Hún nær þarna að koma því á framfæri að það sé ástæða til að skoða þessi skattframtöl og fær líka nöfn á þremur öðrum einstaklingur sem Cohen segir að geti svarað betur en hann spurningum um fjármál forsetans.“ 

Ekkert lekið úr rannsókn Muller

Fram hefur komið að Michael Cohen hefur gerst sekur um að bera ljúgvitni og repúblikanar gagnrýndu hann sérstaklega fyrir það í gær og sögðu hann ekki trúverðugt vitni. Silja Bára segir að demókratar muni hins vegar nota það sem röksemdarfærslu fyrir trúverðugleika Cohens að hann hafi fórnað miklu til þess að flytja mál sitt fyrir nefndinni. Hann hafi verið sviptur lögmannsréttindum og fara í fangelsi.

Vitnisburður Cohens leggi ákveðinn grunn fyrir væntanlega skýrslu Roberts Muller, sem gæti komið út í næstu viku. Ekkert hafi lekið út um hvað þar geti komið fram. Cohen hafi ekki getað svarað ýmsum spurningum sem snertu rannsókn Mullers vegna samninga við ákæruvaldið. „Um það hvað hann má segja og hvað hann fær þá í staðinn. Svo var hann spurður beint út hvort hann vissi um frekara glæpsamlegt athæfi og hann sagði já.“  Hann gæti ekki talað um það, væntanlega vegna rannsóknarinnar. 

Silja Bára segir að ekki sé líklegt að almenningur hafi samúð með Cohen. „Af því að þetta fer svo mikið fram í gegnum fjölmiðla að þá er það vandamál að hann nær ekki kannski samúð áhorfenda. En síðan er það auðvitað lagalega ferlið sem skiptir meira máli og hið pólitíska, það er að segja hvernig þingnefndin fer með þetta og hvort þau vilja ganga lengra til dæmis með því að kæra forseta fyrir brot í embætti, sem er kannski ólíklegt enn sem komið er en styrkir undirstöður þess málflutnings.“ 

Silja Bára segir venja í dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, ekki lagalega bindandi heldur lagalegt fordæmi, að forseti er ekki ákærður í embætti fyrir önnur brot en þau sem hann fremur í embætti. „Það þýðir auðvitað að hvað sem kemur út úr þessu, svo framarlega sem það eru ekki brot í embætti, þá er ekki verið að fara að ákæra Trump fyrr en hann er kominn út úr Hvíta húsinu.“