Tveir norskir sálfræðingar í Bergen hafa búið til meðferðaráætlun fyrir þá sem greindir eru með þráhyggjuáráttu eða OCD (e. obsessive compulsive disorder) og árangur meðferðarinnar þykir það góður að vakið hefur athygli víða um heim.

Meðferðin fer fram á einni viku þar sem ætlast er til þess að fólk taki sér frí frá vinnu eða skóla og einbeiti sér algjörlega að verkefninu.

Kvíðameðferðarstöðin á Íslandi er eina stöðin fyrir utan Noreg sem hefur fengið leyfi til að nota þessa meðferð og nú þegar hafa fimm hópar fullorðinna gengist undir þessa meðferð.

Í haust verður boðið upp á meðferð fyrir börn á aldrinum 11-18 ára.  Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni segir að sú aðferð, að taka frá heila viku til að einbeita sér að meðferðinni, skipti sköpum því oft sé það þannig að vikulegir tímar detti út og þá dragist meðferð á langinn. Norsku sálfræðingarnir fylgjast með innleiðingu þessarar meðferðar á Kvíðameðferðarstöðinni en þeir leggja mikla áherslu á að gæði og fagmennska séu í fyrirrúmi.