Norsku sjónvarpsþættirnir SKAM hafa slegið rækilega í gegn, ekki bara í heimalandinu heldur um víða veröld - ekki síst hér á landi. Raunsæisleg nálgun á líf unglinga og söguþráður sem kemur í ljós í rauntíma á samfélagsmiðlum er meðal þess sem gefur norsku sjónvarpsþáttunum Skam sérstöðu. Menningin kynnti sér þetta nýjasta framlag Noregs til heimsmenningarinnar og ræddi við nokkra Skam-sérfræðinga.
Raunsæ umfjöllun um líf unglinga
SKAM, þættir norska ríkisútvarpsins NRK, gerast meðal ungmenna í menntaskóla í einum af fínni hverfum Óslóar og snúast að stærstum hluta um vinhóp sem fimm stelpur mynda kjarnann í. Hver sería fylgir eftir einni aðalpersónu, og nú er beðið í ofvæni eftir því hver verði í brennidepli í þeirri fjórðu, sem er væntanleg. Vinsældir þáttanna hér á landi eru miklar - yfir sex þúsund manns eru til að mynda skráðir í sérstakan Skam-umræðuhóp á facebook – en hægt er að horfa á fyrstu tvær seríurnar með íslenskum texta á vef RÚV og von er á þeirri þriðju á allra næstu dögum. „Það eru mjög fáir sem eru ekki að horfa í kringum mig,“ segir Hanna María Ásgeirsdóttir, nemi í MH. Því samsinnir Ragnheiður Helga Blöndal, skólasystir hennar. „Maður mætir bara í skólann og svo getur maður ekki talað um neitt annað.“
Umfjöllunarefni þáttarins gefa líka ríkt tilefni til umræðna. Óskar Steinn Ómarsson, háskólanemi, segir þættina snerta á svolítið öðruvísi efni en gengur og gerist í sjónvarpsþáttum sem beint er að ungu fólki. „Það eru þemu eins og geðsjúkdómar og átraskanir. Og í þriðju seríu, þar er aðalpersóna sem er að glíma við að vera að uppgötva að hann er samkynhneigður – ástfanginn í fyrsta skipti. Það er einhver saga sem hefur aldrei verið sögð á þennan hátt áður – þannig að þetta er mjög mikilvægt þannig séð, það er verið að draga upp málefni og gera þau sýnileg, og það er held ég það sem skiptir svo miklu máli.“
Sjónvarp fyrir sítengdu kynslóðina
„Unglingar eru aðalhetjur í sínu eigin lífi og fókusera á sitt eigið líf og líf vina sinna, og það er það sem þetta snýst um,“ segir Anna Marsibil Clausen blaðamaður, sem velt hefur þessu nýjasta æði í evrópsku sjónvarpi fyrir sér „Þetta er mjög samfélagsmiðlamiðaður þáttur, sem spilar auðvitað beint inn á veruleika unglinga. Framsetning þáttanna er þess eðlis að hún miðar algjörlega inn á unglinginn. Þegar þættirnir voru kynntir var það gert algjörlega á netinu einmitt vegna þess að höfundar þáttanna vildu ekki að krakkarnir væru að heyra af þeim frá foreldrum sínum. Þannig að þeir auglýstu þættina ekki á NRK.“
Norska komin í tísku
Meðal áhrifa sjónvarpsþáttanna er að ungt fólk á Íslandi og víðar er farið að bregða fyrir sig norsku, en tungumál og menning Noregs á ríkan þátt í aðdráttarafli þáttanna. Það kemur því ef til vill ekki á óvart að íslenskir aðdáendur hafi litla trú á því að amerísk endurgerð þáttanna, sem fyrirhuguð er, heppnist vel. „Mig langar að hafa trú á þessu en ég veit ekki hvort þeir taka það sem gerir Skam svo sérstakt og geti fært það yfir,“ segir Ragnheiður Helga.