Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að þingkosningarnar séu ekki snemma vegna Wintris-málsins. „Ég steig til hliðar á meðan það mál var að skýrast sem það hefur svo sannarlega gert síðar,“ sagði Sigmundur Davíð sem taldi sig hafa farið í gegnum eina ítarlegustu skoðun sem nokkur stjórnmálamaður hefði farið í gegnum.
Oddvitar þeirra 12 stjórnmálaflokka sem ætla að bjóða fram í þingkosningunum í október mættust í fyrsta skipti í sjónvarpssal á RÚV í kvöld. Kappræðunum er sjónvarpað og útvarpað á Rás 2 en líka textaðar á 888 og táknmálstúlkaðar á RÚV 2.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fyrstur til svara í þættinum. Hann gerði athugasemdir við þá fullyrðingu þáttastjórnenda að verið væri að kjósa snemma vegna Wintrismálsins. Hann sagði það standa upp úr í því máli að hann og eiginkona hans hefðu alltaf staðið skil á öllu gagnvart samfélaginu. „Og í öðru lagi hef ég sem stjórnmálamaður tekið almannahagsmuni framyfir hagsmuni mína.“
Sigmundur sagðist geta beðist afsökunar á mörgu sem stjórnmálamaður og einstaklingur. „En það er ekki hægt að biðjast afsökunar á að hafa orðið fyrir einhverju, sem ekki er hægt að kalla annað en ótrúlega árás, sem síðar hefur sýnt sig og verið sannað að var tilefnislaus og ótrúlega gróf.“
Sigmundur sagðist aldrei hafa átt hlut í þessum eignum eins og hefði verið útskýrt. „Það er hins vegar tilfellið að eiginkona mín átti eignir sem voru skráðar í ákveðnu landi sem hefur aldrei verið í skattaskjóli. Hún hefur alla tíð gefið allt upp - nafn félagsins og landið á skattaskýrslu sinni.“
Sigmundur sagðist geta beðist afsökunar á mörgum hlutum en hann gæti ekki beðist afsökunar á því með hvaða hætti hvernig ákveðnir aðilar, meðal annars innan RÚV, hefðu gengið fram í þessu máli.
Hægt er að horfa á innslagið í heild sinni hér að ofan.