Net gervimanna eins og hafa verið notaðir til að dreifa falsfréttum er tengt þúsundum Íslendinga á Twitter. Þór Matthíasson, þróunarstjóri hjá markaðs- og tæknifyrirtækinu Svartagaldri hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart blekkingum á netinu. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar segir að Fjölmiðlanefndir í Evrópu ræði nú afleiðingar þessara blekkinga.

Auðvelt að safna upplýsingum um fólk

Með ákveðnum forritum er hægt að fá upplýsingar um alla Íslendinga sem eru á Twitter, hve oft, um hvað þeir tísta og svo framvegis. Svona upplýsingar er er auðvelt að greina og sníða til og nota til að beina upplýsingum til ákveðinna hópa.

Twitter er tekið sem dæmi hér en aðrir samfélagsmiðlar hafa verið notaðir til að sækja upplýsingar um fólk. Þekkt er umræðan um Facebook, Cambridge Analytica, Trump og Brexit en nýlega bættist Jair Bolsonaro, nýkjörinn forseti Brasilíu, í hóp þeirra sem eru sagðir geta þakkað blekkingum á samfélagsmiðlum sigur sinn. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar segir að hann hafi náð kjöri með því að dreifa  hundrað þúsund skilaboðum til milljóna kjósenda á WhatsApp sem er í eigu Facebook. 
 
„Og þar kemur í ljós að 50% af þeim skilaboðum sem voru send til notenda voru annað hvort misvísandi eða með röngum skilaboðum.“

Vaxandi áhyggjur af lýðræðislegum kosningum

Stjórnvöld víða í Evrópu hafa áhyggur af þessari þróun ekki síst vegna þess að kosið verður til Evrópuþingsins í maí og þingkosningar verða í að minnsta kosti 13 þjóðríkjum sambandsins.

Fjölmiðlanefndir í Evrópu velta nú fyrir sér hvernig vara eigi fólk við hættunni.
„Og að fólk geri sér grein fyrir því svona að það eru í grundvallaratriðum að verða mjög miklar breytingar á því hvernig upplýsingum er komið á framfæri við fólk.“

Gervimenn dreifa falsfréttum

Hjá markaðs- og tæknifyrirtækinu Svartagaldri hafa starfsmenn tekið eftir neti gervimanna eða svokölluðum botum sem tengjast Íslendingum á Twitter.  

Þór segir að gervimennirnir fylgist með þúsundum Íslendinga á Twitter. Í augnablikinu séu þeir óvirkir. „Það sem gæti gerst og hefur gerst, eins og í Ameríku og þessum stöðum, er að það hefur verið hægt að kveikja á þessum botum af því að þetta er mögulega sami eigandinn.“ 

„Eins og Trump er frægur fyrir að segja fake News og tengja við þetta og allt í einu er bara komið á öllum feedum hjá öllum Íslendingum að þetta sé fake news frá mismunandi fólki.“

„Það er margt hægt í þessu og fólk þarf bara að vera á varðbergi.“