Sverrir Ólafsson meðdómandi í Aurum málinu segist ekki trúa að sérstökum saksóknara hafi verið ókunnugt um að þeir Ólafur Ólafsson, sakborningur í Al Thani málinu, væru bræður. Ólafur Þór Hauksson telur að dómari í málinu hefði átt að upplýsa um ættartengslin.
Ólafur Þór hefur sagt í fréttum að tengsl bræðranna hefðu skipt máli fyrir undirbúning málsins. Allar líkur séu á að gerð hefði verið athugasemd við skipan Sverris, hefðu þau legið fyrir.
Sverrir, sem er prófessor í fjármálaverkfræði, tilkynnti tengslin til aðaldómara málsins. Ekki var talin ástæða til að upplýsa sérstakan saksóknara um þau. Sverrir segir málin tvö aðskilin og að Ólafur eigi engan þátt í Aurum málinu. „Bróðir minn tengist því á engan hátt. Ég þekki ekki nokkurn af þeim fjórmenningum sem voru ákærðir í Aurum málinu, engan.“
Eftir umhugsun hafi hann því ákveðið að taka að sér starf meðdómanda. „Ég fór til dómarans, Guðjóns St. Marteinssonar, sagði honum frá tengslum mínum. Hann taldi að það væru ekki vandkvæði á því að ég tæki þetta að mér.“
Tilraun til að veikja dóminn
Sverrir segir að flestir viti að þeir Ólafur séu bræður. „Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“
„Ég trúi því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var. Hann telji hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Að mér laumast sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn,“ segir Sverrir.