Reimar Snæfells Pétursson lögfræðingur er með göngubretti við skrifborðið sitt og gengur jafnvel marga kílómetra á venjulegum vinnudegi á meðan hann vinnur.

„Maður er náttúrulega farinn að hugsa um heilsuna,“ segir Reimar sem situr, eins og svo margir, við skrifborð meirihluta vinnudagsins, eða öllu heldur sat. Hann var farinn að nálgast fimmtugt og eins og gengur og gerist hefur hann farið að huga meira að heilsunni eftir því sem hann eldist. „Menn sem sitja allan daginn við skrifborð hafa tilhneigingu til þess, þegar þeir verða sjötugir að vera rasslausir en með bumbuna út í loftið.“ 

Reimar ákvað því að prófa að fá sér skrifborð sem var upphækkanlegt, en honum fannst það ekki sérstaklega þægilegt, meðal annars vegna þess að hann hafði tilhneigingu til þess að standa meira í aðra löppina og þessi mikla kyrrstaða fannst honum ekki góð. Svo sá hann í sjónvarpsþætti konu sem gekk á göngubretti á meðan hún vann við skrifborðið sitt. „Ég fór strax á internetið og keypti mér svona göngubretti,“ og nú notar hann eins mikinn tíma og hann getur til að ganga á brettinu á meðan hann vinnur.

Reimar segir að þetta sé stórsniðugt. Hann gengur á allt að þriggja kílómetra hraða á klukkustund sem er nóg til að halda blóðflæðinu gangandi og segir að þetta hjálpi honum að halda einbeitingu. Gangan hentar misvel við verkefni dagsins, til dæmis sé erfitt að handskrifa um leið en betra að lesa eða skrifa á lyklaborðið. Suma daga gengur hann allt að átta kílómetra á dag.

Reimar var í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1 og viðtalið má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.