Gamlar litlar kirkjur um allt land eru veikasti punkturinn í brunavörnum gamalla húsa á Íslandi, segir Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar sem ásamt Minjastofnun hafa unnið leiðbeiningar um brunavarnir í friðlýstum kirkjum hér á landi. Tvöhundruð og fjórtán friðlýstar kirkjur eru á Íslandi. Sumar eru á landsbyggðinni og oft er langt í slökkvilið.

214 friðlýstar kirkjur

Bruni Vorrar frúarkirkju í París hefur orðið til þess að menn velta fyrir sér hvernig brunavörnum er háttað í gömlum húsum og kirkjum hér á landi. Kirkjan í Heydölum í Breiðdal brann 17. júní 1982, Vallakirkja í Svarfaðardal brann 31. október 1996 og voru eldsupptök rakin til sjálfsíkveikju. Laufáskirkja skemmdist í bruna 11. desember 2016. Eldsupptök voru rakin til spennis fyrir lýsingu á leiðum í kirkjugarðinum. Þessi dæmi um kirkjubruna eru nefnd í minnisblaði Mannvirkjastofnunar og Minjastofnunar þar sem eru leiðbeiningar um  brunavarnir í friðlýstum kirkjum. 

„Það eru um 2014 friðlýstar kirkjur á Íslandi, byggðar flestar 1834 til 1918. Þetta er menningararfur sem við viljum alls ekki missa. Svo eru auðvitað önnur hús og sérstaklega eru viðkvæm þessi timburhús önnur hús t.d. hérna í Reykjavík ef við segjum MR, Iðnó, ýmis hús við Aðalstræti, Fríkirkjan o.s.frv.“ 
 

Vatnsúðakerfi og viðvörunarkerfi í stærri byggingum

Björn segir að timburbyggingarnar séu viðkvæmastar, ekki síst vegna þess að oft er holrúm í veggjunum. 

„Svona byggjum við ekki lengur í nútímabyggingum en þetta eru gömlu byggingarnar. Það er auðvitað margt að varast og alls kyns smáatriði sem geta komið þarna inn í. En það eru holrúmin oft sem gera það að verkum að eldurinn getur breiðst út farið upp á milli hæða og allt í einu komist upp í þak og allt orðið alelda mjög fljótlega. 
Hvernig er staðan þá varðandi brunavarnir á þessum kirkjum og húsum sem þú nefndir?
Ég veit að í þessum stærri byggingum eins og t.d. í MR, í Miðbæjarskólanum sem er þarna rétt við MR, þarna niðri við Tjörnina í svona stærri byggingum þá höfum við sett inn vatnsúðakerfi.“

Einnig hafa verið sett inn öflug viðvörunarkerfi svo hægt sé að bregðast skjótt við. 

Flestar gömlu kirkjurnar eru byggðar úr timbri, ýmist timburklæddar eða klæddar bárujárni. Björn segir að þær séu mikilsverður hluti byggingararfleifðar Íslendinga. 

„Við erum t.d. með nokkuð öflugt slökkvilið hér á höfuðborgarsvæðinu en vandinn er oft litlar verðmætar frábærar gamlar kirkjur á landsbyggðinni þar sem getur verið langt í slökkvilið.“ 
 

Kerti, rafmagn og sjálfsíkveikja

Í leiðbeiningum um brunavarnir í friðlýstum kirkjum segir að þegar brunavarnir eru annars vegar verði að meta hverja kirkju fyrir sig með hliðsjón af stærð og notkun hússins. Algengustu orsakir bruna í kirkjum séu út frá kertum, rafmagni og sjálfsíkveikju. Einnig hafa íkveikjur verið allnokkrar á liðnum áratugum og lagt til að varnir gagnvart þeim séu einnig þáttur í brunavörnum.  

„Þetta geta verið mjög viðkvæm hús og það er bara alls ekki sama hvernig menn gera upp svona gamlar timburbyggingar. Til dæmis gætu menn freistast til þess að setja steinull í öll holrými en þarna ertu kannski með byggingu sem hefur staðið vel í 200 ár eða 100 ár og hefur ekkert fúnað svo þegar menn setja inn steinull og þétta allt rosalega vel þá geta ýmis vandamál komið upp. Þannig verða menn að fara óskaplega varlega og það eru mjög góðir sérfræðingar í minjavernd, bæði hjá Minjastofnun og annars staðar, sem þekkja þetta óskaplega vel. Þarna verða menn að fara óskaplega varlega.“

Litlar gamlar kirkjur út um allt land

„Hvernig myndir þú segja að staðan væri hjá okkur varðandi þessi gömlu hús og kirkjur?  Ég myndi segja að staðan væri alveg bærileg þannig. Við erum með helmingi færri tjón á Íslandi varðandi eldsvoða og helmingi færri mannslát af völdum eldsvoða líka, miðað við Norðurlöndin. Þannig að við stöndum okkur vel. En við erum með einstaka mjög viðkvæmar byggingar sem eru gríðarlega menningarlega verðmætar. Þannig að það eru veikleikar í þessu.“ 

Byggingar úr timbri með holrúm í veggjunum eru viðkvæmastar og þær eru oftast í miðbæjum kaupstaða. En hvað með Alþingishúsið?

„Og einmitt Alþingishúsið þar ertu með svolítið flóknari byggingu þar sem útveggir eru úr steini.  Við viljum alls ekki missa Alþingishúsið. Þar hafa menn farið mjög vel inn og unnið mjög vel brunavarnir, ég sjálfur hef ekki miklar áhyggjur af Alþingishúsinu. En Dómkirkjunni? Já menn hafa farið aftur í endurbyggingu þar og sinnt því mjög vel þannig að ég er nokkuð vongóður um að við gætum slökkt eld þar án þess að þar verði altjón. 

Hvar er veikasti punkturinn, hvar þarf að bæta í?  Þeir eru verð ég að segja mjög víða. Við erum með mjög viðkvæmar gamlar kirkjur, litlar gamlar kirkjur út um allt land sem við viljum ekki missa. Það getur verið dýrt að endurbyggja þær. Þetta er alltaf spurning um að vega og meta hluti.  Menn verða bara að fá sérfræðinga í minjavernd með sérfræðingum í brunavörnum sérstaklega og reyna að vinna málið á skynsaman hátt, standa vörð um menningarverðmætin og samtímis að passa upp á brunavarnirnar.“  
 

<