Ættingjar íslenskrar konu sem hvarf í Bandaríkjaríkjunum á sjötta áratugnum ígrunda að ráða einkaspæjara til að reyna að hafa uppi á henni og tveimur börnum hennar. Óttast er að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi ráðið henni bana.

Reykjavík iðaði af lífið á stríðsárunum og fjöldi bandarískra hermanna dvaldist hér á landi. Í stríðslok varð Ragna Esther Sigurðardóttir yfir sig ástfangin og aðeins nítján ára gömul gifist hún Emerson Lawrence Gavin eða Larry eins og hann var kallaður.

Ungu hjónin sigldu til New York í ársbyrjun nítján hundruð fjörutíu og sex og er komu þeirra getið í dagblaði í Portland í Oregon-ríki þar sem þau gerðu sér heimili. Birt er mynd af þeim og móður Larrys.

Þar segir að brúðurinn sé listakokkur, hlédræg, með blá augu og ljósa lokka. Þeim fæðist sonur rúmu ári eftir komuna, Raymond Leslie -  en sælan er fljótlega úti því Larry fer að beita konu sína ofbeldi.

Faðir Estherar og bræður skrifa henni mörg bréf sem misfarast og því missa þeir fljótlega samband við hana. Þetta veldur henni greinilega hugarangri eins og kemur fram í bréfi sem hún skrifað föður sínum.

Þar segist hún hafa farið frá Larry en hann hafi svo lofað bót og betrun og keypt stórt og fallegt hús handa henni. Í bréfinu nefnir Esther hvergi ofbeldið berum orðum en segir að faðir sinn þurfi ekki að vera hræddur um að Larry geri „það“ aftur.

Á fimmta áratugnum reyndu ættingjar Estherar í Reykjavík enn að ná sambandi við hana en árangurslaust. Þeir vissu ekki að nítján hundruð og fimmtíu ól hún dótturina Donitu. Þeir höfðu heldur enga hugmynd um að ári seinna skildu Larry og Esther.

Mörgum árum seinna fá ættingjarnir í hendur dómsskjöl þar sem kemur fram að Larry hafi barið Esther svo illa að hún þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Um leið og hún hafi losnað þaðan hafi hann barið hana aftur og hótað lífláti. Hann hafi haldið byssu að henni og skipað henni að skrifa undir skjöl um að falla frá málaferlum á hendur honum.

Esther fékk forræði yfir börnunum og Larry átti að greiða meðlag. Það virðist hann ekki hafa gert. Ættingjarnir komust nýlega í tölvupóstssamband við eitt barna Larrys af öðru hjónabandi. Í tölvupósti segir Esther hafi hringt heim til Larrys nítján hundruð fimmtíu og fimm og talað við þáverandi eiginkonu hans og beðið hana um að taka börnin.

Þegar Larry kemur heim bregst hann reiður við og hverfur í nokkra daga. Þegar hann kemur heim á ný segir hann konu sinni að Esther muni ekki ónáða þau framar. Eftir þetta hefur ekkert spurst til Estherar þótt ættingjar henni hafi ítrekað reynt að hafa uppi á henni og börnunum. Í tölvuskeytinu segist dóttir Larry telja að hann hafi ráðið Esther af dögum. Ættingjar hennar ígrunda nú að ráða einkaspæjara.