Átján manns létust í umferðinni á nýliðnu ári. Aðeins einu sinni hafa jafnmargir látist á einu ári undanfarinn áratug. Sérfræðingur segir galið að hámarkshraði á ákveðnum köflum sé 90 kílómetrar á klukkustund.
Hörmulegt banaslys varð við Núpsvötn milli jóla og nýárs, þegar jeppi sem í voru sjö erlendir ferðamenn fór fram af einbreiðri brú með þeim afleiðingum að þrír létust, þar á meðal 11 mánaða gamalt barn. Við slysið fjölgaði þeim sem létust í umferðinni hér á landi árið 2018 úr 15 í 18 í einu vetfangi. Aðeins einu sinni á síðustu tíu árum hafa jafnmargir dáið í umferðarslysum á einu ári, en það var árið 2016.
„Þetta er auðvitað alltof mikið,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar hjá Samgöngustofu. „En þegar það verður eitt svona slys, þrír látnir, þá hefur það auðvitað mikil áhrif á alla tölfræði.“
Langflest banaslys á Suðurlandi
Gunnar Geir bendir á að stór hluti látinna sé erlendir ferðamenn.
„Sex af þessum átján sem létust í fyrra voru erlendir ferðamenn. Og það er það mesta sem verið hefur á einu ári. Þar að auki voru þrír erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi þannig að helmingur þeirra sem lést voru útlendingar.“
Athygli vekur að langstærstur hluti þessara banaslysa varð á Suðurlandi og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Af 18 látnum létust 14 á því svæði.
„Þar er umferðin mest, þar eru ferðamennirnir að aka hvað mest, við erum að sjá aukningu í slysum vegna framanákeyrslna. Það fylgir aukinni umferð að þegar þú missir bílinn til vinstri, þá aukast líkurnar á að þú lendir framan á bíl, en fyrir nokkrum árum síðan hefðir þú bara ekið út af vinstra megin. Og við vitum að framanákeyrslur eru hættulegasti hluti umferðarinnar.“
Gunnar Geir segir nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að fækka alvarlegum slysum. Mikilvægast sé að aðskilja akstursstefnur og lækka hámarkshraða á ákveðnum stöðum.
„Til dæmis við einbreiðar brýr og krappar beygjur. Það eru staðir þar sem það er í rauninni alveg galið að hafa 90 kílómetra hámarkshraða. Við Íslendingar vitum kannski að við myndum aldrei keyra á 90 við þessar aðstæður, en erlendir ferðamenn sem vita ekki betur fara kannski í kröppu beygjurnar og yfir einbreiðu brýrnar alltof hratt,“ segir Gunnar Geir.