Valur Grettisson, ritstjóri Reykjavík Grapevine, segir að fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra hunsi stóran hóp á Íslandi sem ekki tali íslensku. „Það er mjög mikilvægt að útlendingar geti nálgast íslenska þjóðmenningu á aðgengilegan hátt,“ sagði Valur á Morgunvakt Rásar 2. Hann viðraði jafnframt áhyggjur af því að styrkjafyrirkomulag geri fjölmiðla háða stjórnvöldum og skapi óheilbrigt ástand.
Grapevine á ekki möguleika á styrk því samkvæmt frumvarpinu renna styrkir aðeins til fjölmiðla á íslensku, með tilliti til málverndarsjónarmiða. Valur bendir hins vegar á að í fjölmiðlalögum frá 2011 hafi verið sérstaklega tekið fram að fjölmiðlar á ensku væru ekki andstæðir málverndarsjónarmiðum. „Þetta frumvarp er í mótsögn við þetta því einungis fjölmiðlar á íslensku eru styrktir. Það þýðir að fjölmiðlar á borð við Iceland Review og Reykjavík Grapevine fá ekki styrki eins og fjölmiðlar á íslensku."
Beinist gegn innflytjendum
„Okkur finnst þetta eðlilega svolítið ósanngjarnt því að útlendingar á Íslandi, innflytjendur, eru 12%, þetta eru yfir fjörtíu þúsund einstaklingar. Auðvitað lesa ekki allir Reykjavík Grapevine og auðvitað kunna margir íslensku eða geta lesið íslensku. En stór hluti treystir á ensku. Og stór hluti les kannski íslenskar fréttir og svo les það líka þær ensku til að dýpka skilning sinn á viðkomandi fréttum. En af einhverjum ástæðum hefur menningarmálaráðherra ákveðið að undanskilja þessa fjölmiðla á ensku frá þessu styrkjakerfi. Okkur finnst það ómálefnalegt, mismunun. Við heyrum undir fjölmiðlanefnd, við erum í blaðamannafélaginu; við uppfyllum öll skilyrði sem sett eru og eru mjög ströng í þessu fjölmiðlafrumvarpi. En við erum útilokuð út af tungumálinu og það er bara eitthvað sem beinist gegn innflytjendum og fólki sem sækir sér upplýsingar um Ísland á ensku."
Pólitískt orðagjálfur
Varðandi málverndarsjónarmiðin sagði Valur að tryggja þurfi aðgengi að íslensku án þess að útiloka ensku. „Hvað þýðir það að hafa íslenska málvernd að leiðarljósi? Þýðir það það að hafa fleiri prófarkalesara eða málfarsráðunaut? Þetta þýðir ekkert, þetta eru bara orð á plaggi en engin hugsun að baki. Okkur finnst þetta orðin tóm, bara klassískt pólitískt orðagjálfur."
Styrkir gera fjölmiðla háða stjórnvöldum
Valur sagðist í raun andvígur styrkjafyrirkomulagi. „Það veikir fjölmiðla og gerir þá háðari stjórnvöldum og ég held að það sé ekki heilbrigt ástand. Við búum við þannig ástand í dag að stjórnmálafólk snýst mjög harkalega gegn fjölmiðlum og ég held að það gæti til dæmis orðið mjög óþægilegt fyrir fjölmiðla ef þetta fyrirkomulag yrði aflagt eftir nokkur ár. Ég er nánast á þeirri skoðun að það ætti frekar að skoða skattaumhverfið eða koma böndum á erlendar veitur og aðgengi auglýsenda að þeim. Stærstu risarnir á markaðnum eru samfélagsmiðlar.“