Konur geta látið binda enda á þungun fram til loka 22. viku, samkvæmt nýju frumvarpi heilbrigðisráðherra sem hefur þó enn ekki verið samþykkt í ríkisstjórn. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir frumvarpið vekja spurningar um viðhorf til fatlaðra.

Samkvæmt frumvarpinu þarf kona ekki að gefa neinar ástæður óski hún eftir þungunarrofi fram til loka 22. viku meðgöngu. Samkvæmt núgildandi lögum er þungunarrof heimilt til loka sextándu viku og heimild er til þess eftir 16 vikur, „séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs" eins og segir í lögunum. Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að við vinnslu frumvarpsins hafi verið lögð áhersla á að ákvæði þess gangi ekki gegn réttindum og markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fyrrnefnd hugtök eru ekki í frumvarpinu. Formaður Öryrkjabandalags Íslands fagnar því að þetta orðalag verði ekki lengur í lögum en gerir þó athugasemdir. 

„Það veldur gríðarlegum vonbrigðum að tímamörkin séu hækkuð í fjóran og hálfan mánuð. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er hálf meðganga. Það vekur spurningar hjá okkur hvað sé verið að meina með því. Það hlýtur að vera gert til að það sé hægt að enda líf fóstra sem eru með frávik eða fötlun,“ segir Þuríður. Hún segir að það sé hlutverk stjórnvalda að vinna gegn staðalímyndum og fordómum og vernda margbreytileika. Hún telur þessar hugmyndir stríða gegn því. 

Kvennasvið Landspítalans var meðal þeirra sem lögðu til þennan tíma, 22 vikur. Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu á Landspítala, kveðst skilja sjónarmið þeirra sem gagnrýna lengingu á heimild til þungunarrofs í 22 vikur. „Ég skil alveg þessi sjónarmið, að fötluðum finnist eins og það sé vegið að sér ef fólk velur að enda meðgöngu ef það á von á barni með fötlun en þetta er almenningsálitið eins og er og það er þá um að gera fyrir alla sem að vilja bæta viðhorfin í samfélaginu þannig að fólki finnist kannski ekki að það þurfi að taka þessa ákvörðun. Það er að sjálfsögðu réttur hverrar konu að fá að ráða fyrir sínum líkama og hverrar fjölskyldu að fá að plana sína fjölskyldu eins og kostur er og fólk tekur þetta sannarlega inn í heildarmyndina,“ segir Hulda.

Réttindi kvenna skerðast ekki verði frumvarpið að lögum og það er mikilvægt, að mati Huldu. „Þetta er sá tími sem við höfum miðað við og skipulagt okkar efitrlit á meðgöngu, til dæmis varðandi ómskoðanir, að við séum búin að gera þessa rútínu-ómskoðun við 20 vikur og getum þá brugðist við ef eitthvað kemur fram þar sem þarfnast frekari rannsóknar sem við reynum að vinna mjög fljótt þannig að við séum búin að ná því greina hvers eðlis vandinn er fyrir 22. vikur.“