Næstu þrjú ár verða áskorun fyrir Isavia þar sem flugvöllurinn er of lítill fyrir allan þann fjölda farþega sem fer þar um, að sögn Guðmundar Daða Rúnarssonar, framkvæmdastjóra tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar. Stækkun flugvallarins er á teikniborðinu. Samkvæmt úttekt ferðaþjónustuvefjarins Airhelp er Keflavíkurflugvöllur í 17. sæti yfir verstu flugvelli í heimi.

Athugasemdir þar varða flestar smæð flugvallarins. Hann sé hreinn og nýstárlegur en of lítill. Þar er sagt frá því að framkvæmdir séu að hefjast sem eigi eftir að breyta stöðunni.

„Vöxturinn er búinn að vera ævintýralegur á síðustu fimm árum. Sérstaklega yfir háannatímann hjá Icelandair og WOW vegna þess að þeir eru að reka þetta sem skiptistöð, og yfir sumarmánuðina að þá hefur farþegafjöldinn á skiptifarþegum nánast fjórfaldast,“ sagði Guðmundur Daði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Keflavíkurflugvöllur var valinn besti flugvöllur í Evrópu árið 2013. Hann segir það ekki koma mikið á óvart að verið sé að gagnrýna ástandið þar eins og það sé núna. „Við teljum að við séum með góða áætlun um hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessu ástandi.“

Guðmundur segir að það hafi ekki verið mistök að byggja frekar útistæði fyrir flugvélar en stæði með landgangi. Þróunaráætlun árið 2015 var unnin eftir upplýsingum frá flugfélögunum um væntanlega fjölgun farþega. „Við miðuðum áætlanir okkar við það til að mæta þessari þörf sem við vorum upplýst um en svo varð sprenging á markaðnum.“ Mun fljótlegra sé að byggja stæði lengra frá flugstöðinni og flytja farþega þangað með rútum. Þá kosti það þriðjungi minna en stæði með landgangi. 

Verið er að undirbúa 25.000 fermetra byggingu, að sögn Guðmundar. Með tilkomu hennar stækkar biðsvæði fyrir farþega til muna og raðir við landamæraeftirlit ættu að ganga tvisvar sinnum hraðar. 

Þannig að næstu þrjú ár verða troðin? „Þau verða áskorun. Það eru ekki nýir fermetrar að bætast við á næstu þremur árum.“

Isavia heyrir af óánægju farþega vegna þrengsla. Reglulega er mæld ánægja farþega með þjónustu á flugvellinum og hefur hún haldist stöðug. Fólk sé því almennt ánægt með þjónustuna en síður með aðstöðuna.

Fréttin hefur verið lagfærð.