Gagnrýni á nefndarstörf ekki tímabær

03.08.2017 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður nefndar um stefnumótun í fiskeldi segir sérstakt að sveitar- og bæjarstjórar við Ísafjarðardjúp gagnrýni tillögur nefndar sem ekki eru komnar fram, nefndin sé enn að störfum og á að skila vinnu sinni um miðjan mánuðinn.

Vonbrigði með fund með nefndinni

Sveitar- og bæjarstjórar Súðavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar áttu fund með nefnd sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi á þriðjudaginn og segja í yfirlýsingu að fundurinn hafi valdið þeim vonbrigðum. Þeim virðist sem að störf nefndarinnar snúi að því að ná sáttum mili fiskeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa frekar en að vinna að eiginlegri stefnumótun um uppbyggingu fiskeldis. Þannig séu hagsmunir íbúa á Vestfjörðum ekki hafðir að leiðarljósi.

Vilja að áhrif á byggð hafi vægi í stefnumótun

Sveitar- og bæjarstjórarnir segja óboðlegt að áhættumat Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun laxastofna virðist eiga að vera einhverskonar hornsteinn sáttar og krefjast þess að skýrsla um hagræn, lýðfræðileg og menningarleg áhrif fiskeldis á byggðir við Ísafjarðardjúp verði einnig höfð til grundvallar um ákvörðun um uppbyggingu fiskeldis. Áhættumatið leggst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi en þar eru uppi umfangsmikil áform um laxeldi í sjókvíum. 

Sérstakt að gagnrýna tillögur á þessu stigi

Baldur Pálmi Erlingsson, formaður nefndar um stefnumótun í fiskeldi segir í samtali við fréttastofu að honum þyki sérstakt að gagnrýna tillögur sem ekki séu komnar fram, starfshópurinn sé enn að störfum. Hann segir ekki tímabært að svara gagnrýni sveitar- og bæjarstjóranna eða tjá sig um störf nefndarinnar fyrr en að hún hefur lokið vinnu sinni. Áætlað er að störfum nefndarinnar ljúki um miðjan mánuðinn.