Sóun og umhverfissóðaskapur er meðal þess sem fyrirtækið Flying Tiger situr undir ámæli fyrir eftir að ruslagámur fullur af ónotuðu dóti úr versluninni fannst í Danmörku. Gagnrýnendur segja atvikið ekkert einsdæmi en forstjóri fyrirtækisins fullyrðir að þetta hafi verið mistök sem verði ekki endurtekin.

Það var Fabian Vennekilde sem rakst á varninginn í ruslagámi við verslun Flying Tiger í Vesterbro í Kaupmannahöfn. Vennekilde ofbauð svo sóunin að hann ferjaði farminn heim til sín þar sem hann bauð fólki að koma og taka sér vörur að vild. Hann segir að um 350 manns hafi lagt sér leið heimt til hans til að þiggja varning. 

Flying Tiger er lágvöruverðsverslun sem var fyrst opnuð í Danmörku árið 1995. Nú eru hátt í eitt þúsund slíkar verslanir víða um heim, ýmist undir merkjum Flying Tiger eða Tiger, til að mynda hér á landi. Hæstráðendur hjá fyrirtækinu í Danmörku hafa verið harðlega gagnrýndir eftir að málið kom upp. 

„Flying Tiger hefur gefið sig út fyrir að vera sjálfbært fyrirtæki og að henda vörum í þessu magni er þveröfugt við sjálfbærni,“ segir Niels Lunde, ritstjóri Børsen. 

Sjálf segir forstjórinn að andstætt því sem haldið hafi verið fram, sé þetta tilvik einsdæmi og ekki í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins. 

„Ég vil leggja áherslu á að almennt vinnum við að því að draga úr vörusóun. Þetta var einstaklega óheppilegt slys. Þetta voru mistök,“ segir Mette Maix, forstjóri Flying Tiger.

Nánari umfjöllun um málið má sjá í mynbandinu hér að ofan.