Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á BUGL segir að fíkn í samfélagsmiðla sé ekki ósvipuð fíkn í sterk eiturlyf og jafn erfið viðureignar. Hann segist finna til vanmáttar í erfiðustu málunum. Fullmótuð og gagnreynd meðferðarrúrræði séu ekki til staðar. Hann telur að með því að skilgreina skjáfíkn sem áhættuhegðun geti barnaverndaryfirvöld brugðist við.

Hafa samskonar áhrif og örvandi efni 

Björn segir að líta verði á það gagnrýnum augum að aðferðum nútíma sálfræði sé beitt til þess að gera þessa miðla meira aðlaðandi og meira örvandi á notkun. Sama gildi um tölvuleikina, þar sé stöðug viðgjöf sem sé ávanabinandi. „Allt sem örvar heilann okkar getur verið ávanabindandi. Þegar verðlaunabrautirnar örvast þá setja þær dópamín frá heilastofninum og fram til framheilans og við upplifum vellíðan eða sigurtilfinningu. Það sem nútíma myndgreiningarrannsóknir benda til er að það eru samskonar breytingar í heilum þeirra sem eru með skjáfíkn eins og hjá þeim sem eru með fíkn í örvandi efni eins og kókaín, amfetamín og þess háttar efni.“

Björn segir að kynjaskipting birtist í notkun tækjanna. Stúlkur séu meira á samfélagsmiðlum en strákarnir meira í vandræðum með tölvuleikjaspilunina. 

Finnur fyrir vanmætti í erfiðustu málunum

Björn segir að opna þurfi samfélagsumræðuna um hvernig hægt sé að hámarka gagnsemi tækjanna og draga eins mikið úr skaðsemi þeirra og hægt er. „Ég sem barna- og unglingageðlæknir finn reglulega fyrir vanmætti í erfiðustu málunum því við erum í raun ekki komin þangað að eiga fullmótuð og gagnreynd meðferðarúrræði fyrir þennan hóp. Þessi vandi er að læðast aftan að okkur og okkur vantar úrræði. Það sem trúlega þarf að koma til er virkt samstarf skóla, barnaverndar og svo heilbrigðiskerfisins.“

Til dæmis hvernig væri hægt að bregðast við þessu? „Það má líta á yfirdrifinn skjátíma sem áhættuhegðun. Barnaverndin er með öflug úrræði við áhættuhegðun barna-og unglinga og ég held að við verðum að vinna þetta í samstarfi við barnaverndina. Það er ekkert sérstaklega gagnlegt að leggja barn t.d. inn á geðdeild og afvatna það stafrænt í einhvern tíma ef það útskrifast síðan í sama umhverfið aftur og byrjar bara leikinn aftur þar sem frá var horfið. Þannig að þetta er eiginlega vandi sem þarf að vinnast innan heimilinu þar sem barnið er öllum stundum og þar sem notkunin fer fram.“

Björn segir að dæmi séu um að kalla hafi þurft til lögreglu til að stilla til friðar á heimilum eftir að foreldrar slökkva á netaðgangi barna sinna til að tryggja þeim svefn. „Sem sýnir í rauninni að þessari fíkn fylgir stjórnleysi og jafnvel ofbeldi eins og í annarri fíkn.“ 

Samstarf þurfi á öllum sviðum

Nokkrir skólar hafa bannað snjalltæki á skólatíma önnur en þau sem notuð eru í kennslu. „Allt sem dregur úr mikilli notkun er jákvætt út af fyrir sig þannig að það að það sé verið að tempra notkun þessara tækja í skólanum er gagnlegt í lýðheilsulegu samhengi en þetta vinnst ekki án góðrar samvinnu við foreldrana. Foreldrar, skólar, heilbrigðiskerfi, barnaverndaryfirvöld þurfa að taka höndum saman og þurfum að skilgreina fyrir okkur hvað er í rauninni heilbrigður skjátími. Ég held að það sé skjátími þar sem við hámörkum gagnsemi þessara frábæru tækni en drögum úr skaðseminni.“

Skjáfíkn auki á fyrirliggjandi vanda

Hann segir flóknustu tilvikin á Barna-og unglingageðdeildinni verði enn flóknari ef skjáfíkn bætist við. Þegar unglingar leggjast inn á BUGL vegna depurðar eða mikilla geðrænna erfiðleika eigi margir erfitt með að fjarlægja símkortið úr síma sínum. Það sé ákveðinn þröskuldur fyrir suma. Á fyrstu dögunum róist börnin enda laus við þetta stöðuga áreiti sem valdi streitu. 

Björn segir að ekki sé vitað hversu stór hópurinn er hér á landi. Faraldsfræðilegar rannsóknir erlendis bendi til þess að tölvu-eða skjáfíkn geti orðið faraldur 21.aldarinnar ef ekki verði brugðist við. „Okkur vantar tilfinnanlega úrræði fyrir þá einstaklinga sem eru búnir að loka sig inni í herberginu sínu. Eru bara í tölvunni, ekki í samskiptum við annað fólk, hirða sig ekki almennilega og eru verulega hamlaðir vegna þessarar skjánotkunar. Fyrir þennan hóp eigum við í raun engin góð úrræði.“

Ákveðin einkenni skjáfíknar

Hvernig getur fólk vitað hvort barn þess er komið með skjáfíkn? „Það má segja það að vísbendingarnar um að notkun sé farin að valda vandræðum er ef barnið er sífellt pirrað, getur ekki lagt frá sér tækin, farið að vanrækja skóla, hætt að fara út að hitta vini sína, hætt að sækja tómstundir, svefninn er orðinn óreglulegur þannig að notkunin er farin að stýra sólarhringnum. Þá er verulegur vandi kominn upp. Eitt af því sem við sjáum í endurhæfingu hjá slíkum einstaklingum þá er svefninn algjört lykilatriði, að koma reglu á sólarhringinn aftur og það getur verið þrautin þyngri þvía ð við höfum orðið vör við það að það er netsamfélag í gangi á nóttunni þar sem unglingar eru að spjalla hver við aðra eða strákar í fjölspilaraleikjum á nóttunni. Þetta er eitthvað sem verður að taka á fyrst svo að hægt veðri að endurhæfa barnið inn í venjulegt líf aftur.“