Gagnakröfu hafnað í tugmilljarða máli

18.03.2017 - 10:26
Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur felldi í vikunni úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Landsbankinn og þrotabú gamla Landsbankans yrðu að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang að gögnum um útlán og fjárhagsmálefni gamla Landsbankans fyrir hrun. Þetta er hluti af máli sem slitastjórn gamla Landsbankans höfðaði árið 2012 gegn fyrrverandi stjórnendum bankans.

Slitastjórnin krafðist 27 milljarða króna af bankastjórunum fyrrverandi, Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, og Elínu Sigfúsdóttur, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans fyrir hrun en um skeið bankastjóri Nýja Landsbankans. Það er vegna tjóns sem slitastjórnin taldi að stjórnendurnir hefðu valdið bankanum. Bótagreiðslan myndi lenda á erlendum tryggingafyrirtækjum sem seldu bankanum stjórnendatryggingu. Þau hafa farið fram á víðtækt endurmat á fjárhagsstöðu bankans og telja að rangar upplýsingar hafi verið veittar um stöðu hans þegar tryggingin var keypt.

Þegar tekist var á um kröfu tryggingafélaganna um að láta dómkvadda matsmenn endurmeta stöðu bankans sögðu lögmenn slitastjórnar Landsbankans að slík skoðun gæti tekið fimm ár. Síðan eru liðin þrjú og hálft ár og óvíst um hvenær úttektinni lýkur.