Aðgangsstýringar á vinsælum ferðamannastöðum hafa gefið góða raun í nágrannalöndunum og verið lausn á ákveðnum vandamálum, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. „Ég tel að eins og stendur í dag erum við ekki komin að þeim mörkum,“ sagði hann í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur, fréttamann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.

„Það er ekki erfitt að sjá það fyrir sér að í framtíðinni þurfum við að skoða ýmsar takmarkanir á sumum stöðum með mjög gagnrýnum hætti,“ segir Jóhannes Þór.

Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sagði á Alþingi í dag að tímabært sé að velja sem allra fyrst hentugan ferðamannastað til að kanna hvort stýra þurfi ferðamönnum með öðrum hætti en gert er. Skýr merki væru um að mörg svæði séu komin að þolmörkum. 

Eru margir ferðamannastaðir komnir að þolmörkum? „Það er þannig að þegar ferðamönnum fjölgar jafn gríðarlega og undanfarin ár eins og hér þá eru ákveðnir staðir sem verða fyrir meira álagi en aðrir. Við sjáum það sérstaklega á Suðurlandi. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hve mikla áherslu ráðherra leggur á rannsóknir í ferðamálum. Það skiptir mjög miklu máli að stefnumótun í ferðaþjónustu sé byggð á vísindalegum rannsóknum og gögnum og við fögnum því að ráðherra leggur mikla áherslu á það og höfum bent á það í umsögn okkar um fjárlög að það þurfi að leggja meira fjármagn í þá vinnu. Á því í rauninni byggir sú þolmarkagreining sem þarf að fara fram til að komast að því hvar álagspunktarnir liggja.“

Jóhannes Þór segir að í góðu lagi sé að það sé uppselt á ákveðna staði ef álagið sé orðið það mikið að grípa þurfi inn í. „Við sjáum í nágrannalöndum þar sem menn stýra aðgangi að ákveðnum náttúruperlum og við erum farin að sá vísi að slíku nú þegar. Aðalmálið er að það sé byggt á gögnum og rannsóknum sem móta þá stefnu í þessum málum.“