Eyjaskeggjar sem myrtu bandarískan trúboða á afskekktri indverskri eyju kunna að hafa gert það af ótta við sjúkdóma, segir mannfræðingur. Trúboðinn hafði komið áður til eyjarinnar en flúið undan örvahríð heimamanna.

Morð afskekktra indverskra eyjaskeggja á bandarískum trúboða hefur vakið mikla athygli. Trúboðinn fór til eyjar þeirra þrátt fyrir bann við því og vitneskju um að hann gæti borið sjúkdóma með sér. 

Lítið er vitað um fólkið sem býr á eyjunum. Talið er að það sé um hundrað manneskjur. Kristján Þór Sigurðsson mannfræðingur ræddi um fólkið í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Það hafa verið rannsakaðir einhverjir haugar, ruslahaugar á þessum eyju, sem er hægt að aldursgreina svona 2.000 ár aftur í tímann. Þeir gætu hafa verið þarna í 30 þúsund ár. Hvað hefur á daga þeirra drifið á þeim tíma höfum við ekki hugmynd um. Við vitum það að Marco Polo kom þarna við. Hann sagði að þetta væri viðskotaillsta fólks sem hann hefði hitt, það hefði bara mætt þeim þarna örvahríð.“

Hann segir að óvinveitt viðbrögð við óþekktu fólki geti átt sér rökréttar skýringar. „Það eru hugmyndir um það, nú eru þetta ósköp venjulegir menn þó þeir lifi öðruvísi en við, að þeir hafi áttað sig að með því að komast í snertingu við aðkomumenn hafi fylgt því sjúkdómar.“ Á nítjándu öld hafi sæfarar ruðst inn og stolið ölduðum hjónum og börnum. Hjónin hafi fljótt dáið af sjúkdómum en börnunum verið skilað. Þá sé til saga af fólki sem vildi vingast við heimamenn á North Sentinel og færði þeim tvö lifandi svín og dúkku að gjöf. Eyjaskeggjar drápu svínin og grófu þau í jörð ásamt dúkkunni, sagði Kristján.