Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir það óheppilegt að í kjarasamningum sé ákvæði sem heimili uppsagnir ef vextir fari upp fyrir ákveðið stig. „Auðvitað geta aðilar vinnumarkaðarins skrifað allt inn í sína kjarasamninga. Þeir geta sagt að ef sólskinsstundir í Reykjavík sumarið 2020 séu komnir fyrir neðan ákveðið stig að þá verði samningum sagt upp. Þaö er bara þeirra réttur,“ segir Már.

Már segir þó ljóst að eftir að þessir kjarasamningar hafa verið undirritaðir sé svigrúm til vaxtalækkana. Hins vegar eigi vextir að vera hagstjórnartæki og ekki hægt að skuldbinda þá til lengri tíma.  

„Þetta er svona svipað og þú værir að keyra bíl og ætlaðir til Akureyrar og myndir setja það skilyrði að þú mættir ekki snúa stýrinu meira en 30 gráður í aðra hvora áttina. Þú færir fljótt út af,“ segir Már. Hann segir þetta ákvæði þó vera í lagi á meðan það er einungis meðal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld eigi ekki hlut að því. „Þá er þetta ekki þannig að það sé verið að taka sjálfstæðið af seðlabankanum. Hann gerir það sem hann á að gera samkvæmt lögum. Már segir ákvæðið ekki valda slíkum skaða. Már tekur líka skýrt fram að aðilar vinnumarkaðarins geti haft væntingar um það, eftir fall WOW og önnur áföll og þegar kjarasamningar hafa verið undirritaðir, að það séu aðstæður fyrir vaxtalækkunum.

Már segir að í heildina sé undirritun kjarasamninganna í gær góðar fréttir. Launahækkanirnar séu talsvert undir því sem hann hafði óttast. Verðbólgan ætti að geta farið niður og verðbólguvæntingar líka. „Enda hefur það birst á skuldabréfamarkaðnum síðustu daga að krafan á óverðtryggðum lengir ríkisskuldabréfum hefur lækkað all verulega sem bendir til þess að verðbólguálagið er að lækka og verðbólguvæntingar einnig,“ segir Már. Hann bendir á að launahækkanir séu meiri á síðari árum samningsins en á heildina litið sé verið að stíga jákvæð skref.