Gjóskan úr Eyjafjallajökli inniheldur 25 til 35 milligrömm af flúor í hverju kíló, samkvæmt niðurstöðum mælinga sem gerðar voru á sýnum í dag.
Gjóskufallið hefur víða náð nokkurra millimetra þykkt á jörðu en haldi það áfram, gæti búpeningi stafað veruleg hætta af. Verði öskulagið einn sentimetri á þykkt, samsvarar það 700 til 1.000 milligrömmum á fermetra, sem er mjög skaðvænlegt fyrir skepnur.
Nánari greiningu á efnainnihaldi gjóskunnar lýkur í kvöld en Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, sem skoðað hefur sýnin, telur að þarna sé um að ræða ísúra gjósku, mögulega dasít, eins og það heitir í bergfræðinni, en ekki líparít, eins og sumir hafa óttast.