Katrín Ólafsdóttir, lektor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans segir að nefndin munu taka sínar eigin ákvarðanir eftir sem áður þó að ákvæði sé um vaxtalækkun í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og Landssambands verslunarmanna. Hún segir að nefndin geti ekki tekið tillit til ákvæðisins í sínum ákvörðunum. Hún segir líka að bann við 40 ára verðtryggðum lánum gæti útilokað suma frá íbúðarkaupum.
Rætt var við Katrínu í Speglinum um nýja kjarasamninginn. Hún metur það svo að samningurinn sé innan skynsemismarka. Hún segist velta fyrir sér hvort hugmyndir um afnám verðtryggingar nái takmarki sínu. Hún bendir á að verðbólga án húsnæðisverðs hafi á síðustu árum verið lægri en verðbólga með húsnæðisverði. Nú sé þetta á svipuðu róli.
„Segjum að það verði lækkun á húsnæðisverði þá gætu þessi verðtryggingarviðmið sem nú er talað um orðið hærri en vísitala neysluverðs,“ segir Katrín og bendir á að vísitala án húsnæðis sveiflist meira en með húsnæðisverðinu.
„Ef við horfum 5 ár aftur í tímann þá er þetta klárlega jákvætt fyrir lántakendur en ekki víst að þetta verði jákvætt fram í tímann,“ segir Katrín.
Hún efast líka um ágæti þess að banna verðtryggð húsnæðislán til 40 ára. Það gæti komið í veg fyrir að fólk eignist húsnæði sem gæti staðið undir afborgunum af 40 ára láni. Þá er lagt til í samningnum að hægt verði að nýta hluta af lífeyrsjóðssiðgjöldum til að fjármagna íbúðarkaup.
Katrín segir að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða mjög vel. Það sé ekki víst að þetta nái tilgangi sínum og svara verði því hvað þetta þýði til langframa.
Hlusta má á viðtali við Katrínu í spilaranum hér að ofan.