„Það er alveg ljóst að ef það koma ekki einhverjar skýringar – og rússnesk stjórnvöld hafa tíma þangað til annað kvöld til að skýra sitt mál – þá mun þetta hafa mjög alvarlegar afleiðingar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um stöðuna sem upp er komin í samskiptum Breta og Rússa.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði í dag Rússa um að standa á bak við taugaeiturárás á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans. Hún gaf Rússum til loka morgundagsins til að skýra mál sitt, annars yrði litið svo á að þeir væru ábyrgir fyrir árásinni. Rússar hafa hafnað ásökununum.

Guðlaugur Þór segir að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Lundúnum, hafi verið kallaður til fundar í breska utanríkisráðuneytinu í dag ásamt sendiherrum fleiri vinaþjóða þar sem farið var yfir málið. Hann segir að venjan sé sú að Íslendingar standi með öðrum vestrænum þjóðum í málum sem þessum.

„Við höfum fram til þessa staðið með vestrænum vinaþjóðum okkar og ég á ekki von á því að það verði nein breyting þar á,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.