Áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar hefur staðið skipverja þriggja fiskibáta að meintu ólöglegu brottkasti í þessum mánuði og náð því á myndband. Málin voru tilkynnt til lögreglu og Fiskistofu. Forstjóri Landhelgisgæslunnar segir brottkast grófa aðför gegn auðlind landsins.

Landhelgisgæslan sinnir eftirliti á hafinu í kringum landið, meðal annars með brottkasti af fiskiskipum. Það er gert með flugvél, skipum, bátum og dróna. Í þessum mánuði hefur áhöfn Landhelgisgæslunnar í þrígang orðið vitni að því sem lítur út fyrir að vera ólöglegt brottkast af fiskibátum.  

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir málið í rannsókn. 

„En samkvæmt myndum virðist þetta nú vera nokkuð glöggt. En eins og ég segi, þá er þarna um að ræða meint brottkast og það er í rannsókn hjá lögreglu.”

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, var að fljúga í um 4.000 feta hæð yfir miðin vestur af landinu þegar myndirnar af bátunum þremur náðust. Í flugvélinni er öflug myndavél sem náði myndböndum af bátunum. Landhelgisgæslan tilkynnti skipverjana til lögreglu, sem tók á móti þeim þegar þeir komu í land. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að skipstjórar fiskibátanna eigi yfir höfði sér kæru vegna athæfisins. Georg segir brottkast eitt af því alvarlegasta sem Landhelgisgæslan fáist við. 

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Við teljum að þarna sé um að ræða grófa aðför gegn auðlindinni og náttúrunni í kring um landið,” segir Georg.  „Þessar myndir eru teknar í apríl, ég veit ekki alveg nákvæmlega á hvaða svæði, en við erum með þrjú mál, bara í þessum mánuði, sem er ekki gott.” 

Eyþór Björnsson, Fiskistofustjóri, staðfestir að Fiskistofa sé nú með málin á sínu borði. 
„Það sem við gerum núna er að skoða þessi gögn, leggja mat á þau og síðan taka ákvörðun um hvort þau verða tekin til stjórnsýslumeðferðar hjá okkur og ákvörðunar um stjórnsýsluviðurlög,” segir Eyþór.

Landhelgisgæslan fær reglulega ábendingar um mögulegt brottkast. 
„En það er erfitt að staðreyna svona mál nema að hafa skýrar og klárar myndir af því,” segir Georg og vonast til að eftirlitið hafi forvarnargildi gegn brottkasti. „En ég vil nú taka fram að við reiknum með því að flestallir íslenskir sjómenn fari að lögum og hér sé um undantekningartilvik sé að ræða.”

Myndefni með fréttinni er fengið frá Landhelgisgæslunni.

Hér má nálgast innslag Kveiks um brottkast frá 2017, sem varð til þess að Fiskistofa, stjórnvöld og aðrir rannsóknaraðilar efldu rannsóknir og umræðu um brottkast á skipum og bátum til muna.