Íslenska verfræði- og hönnunarstofan Navis er að hanna fyrsta rafmagns-línuveiðibátinn fyrir raunverulegan rekstur. Verkefnið hefur verið styrkt af Tækniþróunarsjóði og Evrópusambandinu. Bjarni Hjartarson, verkefnisstjóri á von á því að báturinn verði komin á sjó eftir þrjú ár. Spegillinn ræddi við Bjarna við höfnina í Reykjavík.
Línubátur með tvöfalt kerfi
Línubáturinn sem Navis hannar er allt að 15 metrar á lengd og undir 30 brúttótonnum. Eftir nokkra rannsóknarvinnu kom í ljós að bátur í þessari stærð væri mögulegur í dag.
„Í þessari stærð þá sjáum við fram á að geta gert þá rafmagns með aðstoð sprengihreyfils. En við erum að vonast til þess að geta keyrt þann sprengihreyfil jafnvel á metanóli. Þá er sprengihreyfillinn líka umhverfisvænn og getur keyrt á íslenskt framleiddri orku.“
Með þessari hybrid-tækni væri hægt að spara allt að 30% af eldsneytikostnaði miðað við dísilolíu og minnka kolefnisspor til muna.
Maður heyrir sagt um hybrid-bíla að þeir séu svo þungir. Hvað með línuveiðibátinn? „Við sjáum fram á að þessi bátur okkar verði í raun og veru ekki þyngri en sambærilegir bátar í dag. Við erum ekki að hanna þennan bát sem hraðveiðibát. Hann er hannaður fyrir ákveðinn hraða sem gerir það að verkum að skrokkurinn getur verið léttari. Batteríin verða staðsett mjög neðarlega og fyrir miðju þannig að þau virka sem ballest. Það eru í flestum bátum ballest þar sem þyngd er sett á ákveðna staði til að auka stöðuleika og þess háttar. Við ætlum að nota batteríin í þetta.“
Þarf að auka búnað í höfnum fyrr en síðar
Navis fékk styrk frá Evrópusambandinu og Tækniþróunarsjóði til að hanna bátinn.
Hvenær áttu von á því að þetta verði að veruleika? „Við segjum að eftir innan við þrjú ár verði báturinn kominn á sjó.“
Þó nokkuð er um það núna að ferjur gangi fyrir rafmagni. Stefnt er að því að nýi Herjólfur verði knúinn rafmagni að hluta til. Í Noregi eru nánast allar nýjar ferjur knúnar rafmagni en ekki er jafn hröð þróun í fiskibátunum.
„Það er búið að gera einn rafmagnsbát í Noregi líka sem var í raun og veru tilraunaverkefni. Hann er minni og ekki hannaður fyrir jafn langa fiskitúra. Okkur sýnist okkar bátur vera fyrsti þessarar tegundar sem hannaður er fyrir raunverulegan rekstur. Þetta er ekki tilraunaverkefni, þetta er ekki verkefni til að sanna að þetta virki, þetta er bátur sem við ætlum að selja og koma í raunverulegan rekstur.“
Það þarf að vera hægt að stinga raf-línuveiðibáti í samband við höfnina. Eru innviðir nægjanlega sterkir?
„Í okkar tilfelli er þetta ekki mjög stórt batterí þótt það sé stórt. Það er töluvert stærra heldur en í rafmagnsbílunum til dæmis en hann hefur ágætis tíma til að hlaða á milli túra. Þannig að álagið yrði ekki eins mikið eins og risastór ferja sem þarf að hlaða á fimm til tíu mínútum. En hins vegar þegar þeim fjölgar og fleiri og fleiri bátar og skip verða með rafmagni um borð þá er klárt mál að það þarf að auka búnað í höfnum til þess að geta hlaðið þessa báta og þessi skip. Þetta er eitthvað sem þyrfti að gera fyrr en seinna til þess að ýta á hönnun og framleiðslu á svona bátum og skipum.“