Fyrsti munnhörpuleikarinn sem fær styrk til að læra í Berklee tónlistarháskólanum í Boston í 70 ára sögu skólans er 23 ára Íslendingur, Þorleifur Gaukur Davíðsson. Skólinn er einn af virtustu tónlistarskólum heims. Gaukur segir styrkinn opna margar dyr, ekki sé hægt að slíta sig frá munnhörpunni.
„Þetta er náttúrlega það hljóðfæri sem er hvað næst röddinni og maður er náttúrlega að herma eftir röddinni, og svo er bara að detta inn í tónlistina og fíla það sem maður er að gera,“ segir Þorleifur.
„Það er rosamikið af mismunandi tæknum sem maður verður að ná tökum á. Það er til dæmis að ná áttundum, allskonar tungutækni, tungutvisterar, og að beygja nóturnar, og að ná bara stjórnun á virkilega litlum detailum, litlum smáatriðum,“ bendir hann á. „Maður er í raun eins og toppíþróttamaður bara í þessum pínkulitlu vöðvum. Maður þarf að hafa virkilega mikla nákvæmni til að ná öllum þessum nótum.“
Aðspurður hvaða tónlist henti munnhörpunni best segist Þorleifur hafa byrjað að spila blús. „Og það er það sem liggur best fyrir mig, en það eru náttúrlega allskonar tónlist sem virkar vel á munnhörpu.“ Í blústónlist sé hinsvegar hægt að beygja tónana og sveigja til að fá tilfinningu í tónlistina.
Þorleifur hefur brátt nám í Berklee tónlistarháskólanum í Boston. „Ég er að fara að læra tónlistarflutning, bachelornám í tónlistarflutningi, og verð þar eini munnhörpuleikarinn.“
En það verður líklega enginn til að kenna honum á munnhörpuna sjálfa. „Þar sem það eru mjög fáir á þessu sviði, þá þarf ég að ákveða hjá hvaða hljóðfæraleikara ég verð hjá, ég hef áður verið hjá saxafónleikurum, og píanóleikurum því þegar menn eru komnir á ákveðið stig þá snýst þetta um harmony, og timing, það snýst minna um hvaða hljóðfæri þú spilar á.“
Þorleifur er spenntur að byrja í skólanum. „Þetta er náttúrlega rosalegt umhverfi, 4000 manns í þessum skóla og allir að læra tónlist og endalausir möguleikar og Bandaríkin eru náttúrlega staðurinn til að vera á fyrir munnhörpuleikara.“