Eftir mikla leit hefur loksins fundist ljósmynd af Vilhelmínu Lever, sem varð fyrst kvenna hér á landi til þess að taka þátt í opinberum kosningum árið 1863 - 19 árum áður en takmarkaður hópur íslenskra kvenna fékk kosningarétt til sveitarstjórna.
Árið 1863 var í fyrsta skipti kosið til bæjarstjórnar á Akureyri. Tólf manns, sem höfðu árið áður greitt átján fiska, eða meira í útsvar til bæjarins og uppfyllt þannig kosningaskilyrði, greiddu atkvæði. Ein þeirra var Madame Vilhelmina Lever. Þetta var örugglega í fyrsta skipti sem kona greiðir atkvæði í opinberum kosningum hér á landi og það sem meira er, 19 árum áður en takmarkaður hópur kvenna fékk rétt til að kjósa til sveitarstjórna á Íslandi. Skýringin á þessu er væntanlega sú að kosið var samkvæmt dönskum lögum og þar segir að „alle fuldmyndige Mænd hafi rétt til að kjósa“. Dönskukunnáttan brást kjörstjórninni á Akureyri og Vilhelmina greiddi atkvæði - enda eru konur líka menn.
Við ritun fyrsta bindis Sögu Akureyrar var gerð árangurslaus leit að ljósmynd af Vilhelminu Lever. En við rannsóknarvinnu Harðar Geirssonar, safnvarðar, vegna ljósmyndasýningar sem nýverið var opnuð á Minjasafninu á Akureyri, fannst loks mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1867 af þessari merku konu í ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands.