Fyrst íslenskra kvenna til að fá verðlaunin

05.07.2017 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni
Sandra Mjöll Jónsdóttir, stofnandi líftæknifyrirtækisins Platome, vann fyrst íslenskra kvenna aðalverðlaun á hátíð Alþjóðasamtaka uppfinninga-og frumkvöðlakvenna (GWIIN/EUWIIN), sem haldin var á Ítalíu í síðustu viku.

Sandra er framkvæmdastjóri Platome Líftækni og aðjúnkt í lífeindafræði við Háskóla Íslands. Fyrirtækið stofnaði hún ásamt Ólafi E. Sigurjónssyni eftir fimm ára rannsóknarsamstarf, og hefur síðustu ár þróað nýjar leiðir til að rækta frumur á rannsóknarstofum með því að nýta afgangs blóðflögur frá Blóðbankanum. „Við erum að þróa og selja næringarlausnir fyrir frumur, einskonar umhverfi þannig að frumur geti lifað á rannsóknarstofum fyrir utan líkamann. Við erum ekki að selja frumur og stofnfrumur heldur þessa lausn til að rækta þær í,“ útskýrir Sandra. „Hugmyndinni hefur verið gífurlega vel tekið og hlotið bæði verðlaun, umfjallanir og svo höfum við auðvitað birt niðurstöðurnar í ritrýndum tímaritum. Grunnurinn að fyrirtækinu er doktorsverkefnið mitt sem ég mun verja frá Háskóla Íslands í september næstkomandi.“

Sjö starfa nú hjá fyrirtækinu. „Viðskiptavinir okkar eru háskólar, rannsóknarstofur, lyfja- og líftæknifyrirtæki sem þurfa þá ekki að nota dýraafurðir til að rækta frumur heldur mennskt umhverfi frá fyrstu tilraun. Þetta flýtir fyrir allri þróun. “

Sandra er einnig í doktorsnámi við Háskóla Íslands. Hún hlaut önnur verðlaun í Gullegginu í fyrra og hefur Platome hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði.

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni
Frá vinstri: Sigrún Shanko, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, Sandra Mjöll Jónsdóttir, Hjördís Sigurðardóttir og Þorbjörg Jensdóttir.

„Konur í nýsköpun eru tilnefndar allt frá áramótum og fram á vor,“ segir Sandra. Alls voru 40 konur tilnefndar frá ýmsum löndum, 15 verðlaun eru veitt og hlutu íslenskar konur flest þeirra. Auk Söndru hlutu fjórar aðrar íslenskar konur verðlaun fyrir nýsköpun. Þær eru Hjördís Sigurðardóttir, stofnandi Aldin Biodome Reykjavík, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, stofnandi Mussila, Dr. Þorbjörg Jensdóttir, stofnandi Hap+ og Sigrún Lára Shanko, listakona og teppagerðarfrumkvöðull.

Þetta eru þriðju verðlaunin sem Sandra Mjöll hlýtur á árinu. Platome var valið sprotafyrirtæki ársins hjá Viðskiptablaðinu í ár og hún sjálf var valin Ungur og efnilegur vísindamaður ársins.

Þá var hún valin ein af tíu framúrskarandi ungum Íslendingum 2016, lenti í 2. sæti í nýsköpunarkeppninni Gullegginu í fyrra svo eitthvað sé nefnt.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV